Kaldrananeshreppur: framkvæmdir fyrir 187 m.kr.

Drangsnes að vetri. Mynd: Kaldrananeshreppur.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps hefur gengið frá fjárhagsáætlun ársins. Afgangur frá rekstri verður 34 m.kr. og handbært fé frá rekstri 45 m.kr. og verður í lok ársins 12 m.kr. Áætlað er að taka 95 m.kr. í ný langtímalán. Framkvæmdir ársins verða 187 m.kr. og verða þær að öllu leyti fjármagnaðar frá rekstri og með lántökum. Ekkert framlag er frá ríkinu til framkvæmdanna.

Langstærsti framkvæmdaliðurinn er 90 m.kr. til bygginga smáhýsa við Vitastíg. Ráðgert er að reisa þau til að bæta úr brýnni þörf fyrir íbúðarhúsnæði. Á skipulaginu er gert ráð fyrir fimm smáhýsum. Til skoðunar eru forsmíðuð timburhús 35 fermetrar og 70 fermetrar að stærð. Finnur Ólafsson, oddviti sagði húsnæðismálin vera afar brýn en mikill skortur er á húsnæði á Drangsnesi.

Þá eru 20 m.kr. settar í malbikun gatna í þorpinu.

Þriðja stóra framkvæmdin er stækkun hitaveitu Drangsness. Nýlega fékkst góður árangur af nýrri borholu fyrir hitaveituna og er nú á dagskránni að stækka heitaveituna og leggja að Bæ, sem er nokkuð fyrir norðan þorpið. Þar munu nokkur hús tengjast við veituna, bæði íbúðarhús og sumarhús. Í það fara 35 m.kr.

DEILA