Ísafjarðarhöfn: samið við hollendinga um dýpkun

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt samning við hollenska fyrirtækið Van Der Kamp um dýpkun við Sundabakka í vor. Áætlað er að byrja á dýpkun í byrjun apríl og að hún taki 10 daga.

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að samið væri um daggjald en ekki magn. Sandurinn verður settur við Norðurtangann innaf fyrirstöðugarðinum og upp með Fjarðarstrætinu.

Það eru Vegagerðin og Ísafjarðarhöfn sem standa að samningnum sem kominn er til vegna þess að Álfsnesið hefur verið ítrekað tekið úr verki á Ísafirði til þess að dýpka Landeyjarhöfn.

Hilmar segir að kostnaðurinn við þennan samning fyrir Ísafjarðarhöfn sé um 20 m.kr. meiri en ætla mætti samkvæmt samningi við Björgun ehf en á móti þeim kostnaði kæmi að ekki verður af fyrirsjáanlegu tekjutapi hafnarinnar um 150 m.kr. eins og á síðasta ári vegna þess að viðlegukanturinn var ekki tilbúinn.

DEILA