Ísafjarðarbær: sviðsstjóri velferðarsviðs víkur sem starfsmaður öldungaráðs

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að gerðar verði breytingar á samþykkt bæjarins um öldungaráð. Er breytingin gerð að ósk sviðsstjóra velferðarsviðs.

Lagt er til að færa hlutverk sviðsstjóra til starfsmanns félagsþjónustu velferðarsviðs en sviðsstjórinn hefur haft það hlutverk að ákveða dagskrá ráðsins, að sitja fundi með ráðinu og rita fundargerð.

Hlutverk öldungaráðsins er að vera vettvangur samráðs bæjarbúa sem eru 67 ára og eldri, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og bæjaryfirvalda og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun um málefni eldri borgara. Öldungaráð er ráðgefandi fyrir starfsemi Ísafjarðarbæjar í málefnum eldri borgara og á að stuðla að eflingu félagsauðs og kynningu á þjónustu stofnana bæjarins til bæjarbúa sem eru 67 ára og eldri.

Öldungaráð er skipað 7 fulltrúum og jafnmörgum til vara. Þrír eru tilefndir af bæjarstjórn, einn kemur frá heilsugæslunni og þrír eru tilnefndir sameiginlega af félögum eldri borgara í Ísafjarðarbæ.

Síðasti skráði fundur öldungaráðs var 16. febrúar 2023.

DEILA