Ísafjarðarbær: hafnar ósk Vestra um að annast þjónustu á Torfnesvelli

Samúel Samúelsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í morgun erindi frá knattspyrnudeild Vestra þar sem farið er fram á að deildin annist í sumar umsjá knattspyrnusvæðisins á Torfnesi.

Í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs kemur fram að kostnaður við ósk Vestra yrði kr.607.638 á mánuði eða kr.4.253.466 fyrir alla 7 mánuðina sem um ræðir. Verði það samþykkt þarf að gera viðauka upp að kr.2.505.198. þar sem í fjárhagsáætlun 2024 er kostnaður við umsjón svæðisins þessu lægri. Miðað er við að þjónusta svæðisins verði unnin af starfsfólki íþróttahússins á Torfnesi á dagvinnutíma.

Fulltrúar Í-lista í bæjarráði bókuðu að þeir telja rétt að starfsmenn íþróttamannvirkja skuli sjá um knattspyrnusvæðið á Torfnesi og Vallarhús. Bæjarstjóra var falið að taka málið aftur upp á fundi bæjarráðs 8. apríl 2024. Áréttað var að gerðar verði ítarlegar verklagsreglur.

Mjög óánægður

Samúel S. Samúelsson formaður meistaraflokksráðs Vestra sagðist verða afar óánægður með þessa afgreiðslu. Hann sagði að reynsla Vestra af þessu fyrirkomulagi væri afleit. Það væri 150 – 200 iðkendur á hverjum degi á svæðinu og algerlega óviðunandi að ekki væri starfsmaður í Vallarhúsinu. Yrði þetta niðurstaðan væri um mikla afturför að ræða.

Samúel sagði að þjónustan væri ekki viðunandi eins og nú er og að Vestri væri eina liðið á landinu sem gæti ekki æft á sínum velli þar sem völlurinn væri ekki mokaður og saltaður. Framundan væri Lengjudeildin og fyrsti leikurinn á að fara fram á nýja gervigrasvellinum á Torfnesi þann 17. febrúar. Völlurinn væri ekki leikfær þar sem ekki væri búið að merkja línur á völlinn og koma upp mörkum. Ef liðið gæti ekki spilað sína heimaleiki á Torfnesi færast leikirnir annað og kostnaður Vestra við hvern leik gæti verið um hálf milljón króna.

DEILA