Hvalveiðar: umsókn Hvals afgreidd svo fljótt sem unnt er

Hvalveiðibátur á siglingu.

Leyfi til hvalveiða rann út um áramót og hefur Hvalur hf lagt inn umsókn um endurnýjun þess.

Í svörum Matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta segir að umsókn Hvals hf. um leyfi til veiða á langreyðum sé til meðferðar í ráðuneytinu og að umsóknin verði afgreidd svo fljótt sem unnt er, en ekki er hægt að segja til um hvenær ákvörðun liggur fyrir.

Starfandi Matvælaráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur skipað starfshóp starfshóps sem verður falið að rýna lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, valdheimildir og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli. Í skýrslu starfshópsins muni koma fram valkostagreining um mögulegar leiðir til úrbóta og stefnumótunar. Valkostir skulu bæði taka mið af áframhaldandi veiðum sem og takmörkun eða banni við veiðum til framtíðar. Skýrslunni er ætlað að vera grundvöllur fyrir framtíðarstefnumótun um hvalveiðar.

Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, verður formaður starfshópsins. Aðrir í hópnum eru:

  • Dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindarétti við Háskóla Íslands
  • Árni Kolbeinsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar
  • Dr. Snjólaug Árnadóttir, forstöðumaður Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og dósent
  • Trausti Fannar Valsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands og dósent í stjórnsýslurétti

Í svörum ráðuneytisins kemur fram að skipun starfshóps um lagaumgjörð hvalveiða hafi ekki áhrif á afgreiðslu umsóknar Hvals hf.

DEILA