Handbolti: toppslagur á Ísafirði í Grilldeildinni

Í dag, laugardaginn 10. febrúar, kl 16.00 taka Harðarmenn á móti Fjölni í toppbaráttuslag í Grill66 deildinni í handbolta. Fjölnismenn eru eins og sakir standa nú í 4 sæti deildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki en Hörður með 12 stig eftir 11 leiki. Þessi leikur skiptir því miklu máli fyrir framhaldið.

Spilaðir eru 18 leikir í deildinni. Það lið sem er í efsta sæti að loknum 18 leikjum fer beint upp í úrvalsdeild en lið í 2. – 5. sæti fer í úrslitakeppni um sæti í efstu deild en 2 lið fara í efstu deild að tímabilinu loknu, toppliðið og sigurvegari úrslitakeppninnar. 

Margir ungir og efnilegir leikmenn hafa tekið sín fyrstu spor í Harðarliðinu í vetur. Albert Marzelíus Hákonarson, markvörður, hefur spilað 6 leiki þrátt fyrir ungan aldur. Bróðir hans Hermann Hákonarson er jafnframt markvörður, 14 ára, kom jafnframt við sögu í einum leik fyrir áramót. Axel Vilji Bragason, 14 ára, hefur spilað 4 leiki í vetur og Pétur Þór Jónsson 4 leiki. Þeir eru báðir í unglingalandsliðum Íslands. Gunnar Hákonarson og Guðmundur Björgvinsson hafa báðir jafnframt verið að fá fleiri og fleiri mínútur þegar liðið hefur á tímabilið.

Tyrkinn Tugberk Catkin hefur komið mjög sterkur inn í lið Harðar og markvörðurinn Jónas Maier, frá Þýskalandi, þykir afar góður leikmaður.

Fyrirliðarnir Óli Björn Vilhjálmsson og Axel Sveinsson hvetja alla til að koma á leikinn og lofa hörkuskemmtun en Harðverjar ætla sér sigur. 

Frítt er inn á leikinn, eins og ætíð hjá Herði, en vakin er sérstök athygli á að frítt er fyrir alla að iðka handknattleik hjá félaginu. 

DEILA