Áhugi á sameiginlegri umsókn í Fiskeldissjóð

Bæjarráð Bolungavíkur setti fram þá hugmynd að vestfirsku sveitarfélögin sendu inn
sameiginlega umsókn í Fiskeldissjóð vegna nýs verknámshúss Menntaskólans á Ísafirði. Fengist styrkur myndi hann ganga til þess að stranda straum af 40% kostnaðarhlut sveitarfélaganna, en ríkið mun greiða 60% kostnaðar.

Það eru sex sveitarfélög á Vestfjörðum sem teljast fiskeldissveitarfélög og geta sótt um styrk úr sjóðnum til verkefna í sveitarfélaginu, Ísafjarðarbær, Bolungavíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur, Strandabyggð, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að þessi hugmynd hafi verið rædd óformlega á vettvangi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og segir hún að ekki sé annað að heyra en fulltrúar séu jákvæðir gagnvart þeirri hugmynd. Arna Lára segir að umsókn í fiskeldissjóð vegna verknámshússins styðji vel við markmið sjóðsins en honum er einmitt ætlað að horfa til sterkari samfélagsgerðar (menntun, menning og íbúaþróun).

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að Súðavíkurhreppur styðji það heilshugar og hvetji um leið önnur sveitarfélög á Vestfjörðum til þess að standa að þessu verkefni með þeim hætti.

Á 19. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps föstudaginn 9. febrúar var bókað um þetta undir 8. lið dagskrár: „Súðavíkurhreppur leggur til að sótt verði um með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum í Fiskeldissjóð fyrir uppbyggingu verknámshúss við MÍ ásamt þeim verkefnum sem sveitarfélagið vill fara í.

Bragi Þór segir að sveitarstjórn líti svo á, ef samstaða náist um þetta, að það trompi önnur verkefni sem áhugi er á að sækja um í Fiskeldissjóð eða þörf er á í viðkomandi sveitarfélögum.

Beðið er svara frá öðrum sveitarfélögum sem geta staðið að umsókninni. Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð segir málið verða á dagskrá fundar sveitarstjórnar seinna í dag.

DEILA