Vilja færa mengunar- og heilbrigðiseftirlit til ríkisins frá sveitarfélögunum

Starfshópur á vegu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku og loftslagsráðherra leggur til að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga verði fært til ríkisins. Ábyrgð á eftirliti með hollustuháttum og
mengunarvörnum færist frá heilbrigðiseftirliti til Umhverfisstofnunar og eftirlit með matvælum færist frá heilbrigðiseftirliti til Matvælastofnunar.

Segir í skýrslu starfshópsin að það sé ljóst eftir mörg og ítarleg samtöl við aðila sem eftirlitið snertir frá ýmsum hliðum að ósamræmi í framkvæmd eftirlits er of mikið, stjórnsýsla er of flókin og yfirsýn skortir. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir almenning auk þeirra neikvæðu áhrifa sem það hefur á atvinnulíf og samkeppnishæfi Íslands.

andstaða við tillögurnar

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða bókaði í desember að það tæki undir bókun Samtaka Heilbrigðiseftirlitssvæða á ÍslandiÍ um skýrslu starfshóps.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi gera verulegar athugasemdir við skýrslu starfshóps á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum. Samtökin telja tillögurnar ekki nægilega vel unnar, rökstuðning vanta og niðurstöðu byggða á veikum grunni, auk þess sem samtökin telja að verulegur skortur hafi verið á samráði við hagaðila, eins og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og sveitarfélögin sjálf, við gerð skýrslunnar.

Þar segir einnig að í skýrslunni komi fram verulegur skortur á skilningi á hlutverki og starfsemi heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga þar sem hún einblínir nær eingöngu á hlutverk þeirra við reglubundið eftirlit en tekur ekki til skoðunar margvísleg önnur verkefni þeirra við vöktun umhverfis, umsagnir, ráðgjöf við íbúa og nærþjónustu.

Líklegt er að færsla á öllu eftirliti til stofnanna ríkisins geti haft verulega áhrif á gæði umhverfis og öryggi og heilnæmi íbúa sveitarfélaga þar sem þjónusta færist fjær íbúum.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi benda á að flestar þær ábendingar sem bent er á skýrslunni snúa ekki að starfsemi heilbrigðiseftirlita á Íslandi, heldur beinast að þeim stofnunum ríkisins sem samkvæmt núgildandi lögum hafa með höndum samræmingu eftirlits.

Anton Helgason, heilbrigðisfulltrúi Vestfjarða segir að ekkert hafi heyrst frá sveitarfélögum varðandi þessar breytingar á stjórsýslunni. „Þó boðaðar breytingar séu enn bara í loftinu og ekki útséð hver endanleg niðurstaða verður þá eru þær þegar farnar að hafa áhrif, þar sem starfsfólk sumra svæða er þegar farið að ráða sig á öðrum starfsvettvangi.“

Lítill áhugi er hjá honum á að starfa hjá Matvælastofnun og því þurfi að gera ráð ráð fyrir kostnaði við starfslok starfsmanna hjá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða.

Í starfshópnum voru Ármann Kr. Ólafsson, formaður, Gunnar Alexander Ólafsson sérfræðingur og Sigríður Gísladóttir, dýralæknir.

DEILA