Strandabyggð: sameining sveitarfélaga ekki lausnin

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Þorgeir Pálsson oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð segir í áramótakveðju sinni að sameining sveitarfélaga sé ekki lausnin sem tryggi framtíð sveitarfélagsins. Með sameiningu fáist fjármagn en það dugi aðeins í skamman tíma. Eftir standi að auknar tekjur séu eina leiðin til eflingar sveitarfélagsins. 

„Mikið er rætt um sameiningar sveitarfélaga sem vissa lausn.  Og það er vissulega rétt að með sameiningu fæst opinbert fjármagn til skuldajöfnunar og innviðauppbygginar, sem getur sannarlega hjálpað í vissan tíma.  En, það sem ekki fæst með sameiningu, eru þær forsendur sem framtíð sveitarfélagsins þarf að byggja á.  Sameinignarfjármagnið klárast og þá eru eftir sömu tekjuliðir og áður, sömu gjaldaliðir, nánast sama fámennið og sama innviðaskuldin, sjálfsagt eitthvað lægri.  Sameining sameiningarinnar vegna er því ekki lausnin.  Það er ekkert betra að berjast í bökkum í eitt til tvö þúsund manna samfélagi eða nokkur hundruð manna samfélagi.“

Þorgeir segir að það komi engar töfralausnir, enginn bjargvættur eða einskiptis lausn.  „Við verðum að finna lausnina sjálf.  Við verðum að ákveða hvernig samfélag við viljum í Strandabyggð og vinna síðan markvisst og samstíga að því að raungera þá mynd.  Það gerir það enginn fyrir okkur.“

Hann vísar málinu til stjórnvalda og segir það hafa legið á borði þeirra lengi.

„Hvernig á landsbyggðin að lifa af, eflast og stækka?  Hvernig á að fá fagfólk út á land til kennslu?  Hvernig á að efla ferðaþjónustu ef ekki koma til nauðsynlegar vegaframkvæmdir?  Hvernig á að tryggja öryggi þeirra sem vilja búa úti á landi, ef vetrarþjónusta á vegum, fjarskiptamál og heilbrigðisþjónusta er ekki í samræmi við þarfir íbúa?“

 

DEILA