Steinadalur: endurbygging vegar

Eitt af fyrirhuguðum útboðum Vegagerðarinnar á þessu ári er Steinadalsvegur (690), Vestfjarðarvegur – Ólafsdalur. Um er að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir á um 6,5 km löngum kafla á Steinadalsvegi milli Vestfjarðavegar og Ólafsdals í sunnanverðum Gilsfirði í Dalabyggð.  Um er að ræða endurbyggingu núverandi vegar.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta vegasamgöngur inn í Ólafsdal, auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum á svæðinu. Vegurinn verður breiðari en núverandi vegur, með bundnu slitlagi og bættum sjónlengdum.

Ekki er um eiginlega styttingu að ræða heldur fyrst og fremst vegabætur til að auka umferðaröryggi og greiðfærni, og efla menningartengda ferðaþjónustu á svæðinu.

Kostnaðaráætlun er um 400 millj. kr. og verður framkvæmdin fjármögnuð af tengivegasjóði. Hægt verður að taka mannvirkið í notkun haustið 2024.

Í kynningarskýrslu um framkvæmdina segir að með endurbyggingu húsanna í Ólafsdal auk núverandi vegar, milli Vestfjarðavegar og Ólafsdals, verði menningar- og sögutengd ferðaþjónusta styrkt
til muna.

Núverandi Steinadalsvegur (690) er alls um 27,8 km langur og nær frá Vestfjarðavegi við Gilsfjarðarbrú og yfir heiðina að Innstrandarvegi í Strandasýslu.

Engin vetrarþjónusta er á Steinadalsvegi eins og er. Sveitarfélagið sér um mokstur á honum eftir þörfum auk Minjaverndar sem hefur látið moka hann fyrir starfsfólk sitt í Ólafsdal.

Mynd úr kynningarskýrslu Vegagerðarinnar.

DEILA