RÚV með rangfærslu um íslensk eldisfyrirtæki

Ríkisútvarpið lét sig hafa það í gær að draga tvö íslensk fiskeldisfyrirtæki inn í frétt um meiningar Evrópusambandsins um samráð norskra fyrirtækja á verði á eldislaxi og fyrirhugaða rannsókn á því.

Íslensku fyrirtækin eru málinu algerlega óviðkomandi.

Rangfærslan er sett fram þar sem helst verður tekið eftir henni, í fyrirsögn fréttarinnar. Þar segir: „Eigendur íslenskra laxeldisfyrirtækja sakaðir um verðsamráð“.

Fréttin er að Evrópusambandið hyggst hefja rannsókn á verðsamráði sex norskra fyrirtækja sem seldi eldislax á markað í Evrópu á árunum 2011 til 2019. Málið á sér aðdraganda og lét Evrópusambandið framkvæma húsleit á skrifstofum félaganna á árinu 2019. Meðal fyrirtækjanna eru Mowi sem nú er meirihlutaeigandi í Arctic Fish og og SalMar sem á meirihluta í Arnarlaxi.

Áform Evrópusambandsins eru í sjálfu sér fréttaefni enda víða á erlendum fréttavefjum sagt frá málinu. Ríkisútvarpið fer hins vegar yfir strikið þegar það slær því upp að um sé að ræða eigendur að vestfirsku eldisfyrirtækjunum. Þar eru tengd saman óskyld atriði.

Staðreyndin er sú að það eru norsk fyrirtæki sem liggja undir grun vegna sölu á norskum eldislaxi. Arnarlax og Arctic Fish eru málinu algerlega óviðkomandi. Það eru íslensk fyrirtæki og selja eigin framleiðslu. Stjórnendur þeirra fyrirtækja hafa ekki komið að málinu.

Eignatengslin eru heldur ekki eins augljós og ætla mætti af fréttinni. Mowi eignaðist ekki hlut í Arctic Fish fyrr en 2022, eða þremur árum eftir að því tímabili lauk sem er undir í væntanlegri rannsókn.

SalMar eignaðist hlut í Arnarlaxi árið 2015 og varð meirihlutaeigandi árið 2019. Þannig að fyrstu fjögur árin sem til stendur að rannsaka átti SalMar ekkert í Arnarlaxi og var minnihlutaeigandi seinni fjögur árin.

Svo það er óhjákvæmilegt að spurt sé: hvað gengur RÚV til með þessari rangfærslu. Hvaða tilgangi þjónar það að tengja tvö vestfirsk eldisfyrirtæki við hugsanlega ólöglegt athæfi norskra fyrirtækja í Noregi fyrir mörgum árum ?

-k

DEILA