Riða: 577 m.kr. í bætur á tveimur árum

Teitur Björn Einarsson.

Ríkið greiddi 577 m.kr. í bætur til bænda vegna niðurskurðar fjár vegna riðu á árunum 2021 og 2022. Fyrra árið var fjárhæðin 407 m.kr. og 170 m.kr. seinna árið. Ekki liggja fyrir upplýsingar í Matvælaráðuneytinu um bótafjárhæðir frá 2002 til 2020.

Þetta kemur fram á Alþingi í svörum Matvælaráðherra við fyrirspurn Teits Björns Einarssonar alþm.

Um 10 þúsund fjár á 20 bæjum hefur verið skorið niður frá 2014.

Fram kemur í svörum ráðherra að sérfræðingahópur á vegum ráðuneytisins hefur lagt til  breytta nálgun þegar upp kemur riða á bæjum, sbr. það sem að framan greinir. Er þannig lagt til að endurskoðuð verði markmið um upprætingu smitefnis á riðubæjum og að kannaðar verði vægari kröfur um hreinsun og fjárleysi. Í kjölfar skýrslunnar er ráðuneytið að skoða og greina hvort/hvaða breytingar þurfi að gera á regluverkinu til þess að innleiða tillögur hópsins.

Á næsta ári er gert ráð fyrir 110 millj. kr. framlagi til þess að hraða innleiðingu verndandi arfgerða. Þá hefur einnig verið ákveðið að niðurgreiða að öllu leyti notkun á sæðingarhrútum sem bera verndandi arfgerð í vetur. Vonir standa til að notkun þeirra verði með mesta móti því að þannig megi flýta fyrir því að lokasigur vinnist gegn riðuveiki á Íslandi. Miðað við stöðuna 19. desember eru líkur til að þær vonir rætist, en sæðingar hafa verið með mesta móti hingað til. Samtals verður varið 58 millj. kr. á yfirstandandi ári til niðurgreiðslu á notkun sæðis úr sæðingarhrútum sem bera verndandi og mögulega verndandi arfgerðir og til að koma til móts við kostnað bænda af arfgerðargreiningum.

DEILA