Menntaskólinn á Ísafirði: setur upp sólarsellur við verkmenntahús

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari M.Í.

Menntaskólinn á Ísafirði fékk nýlega 4,9 m.kr. styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til  þverfaglegs skólaverkefnis með samstarfsaðilum um orkuframleiðslu og felst verkefnið í nýtingu mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði.

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari M.Í. segir að verkefninu í heild sé ætlað að auka skilning kennara og nemenda á orkuframleiðslu og hvernig hægt er að nýta mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði. Verkefnið verður unnið með sérfræðingum Bláma og Orkubús Vestfjarða. Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu.

Með þverfaglegri nálgun innan skólans mun skapast vettvangur til að samþætta námsgreinar og tengja saman nemendur úr ólíkum námsgreinum.

Menntaskólinn á Ísafirði hyggst setja upp sólarsellur við verkmenntahús skólans sem nota á til kennslu, þjálfunar og til að sinna hluta af orkunotkun skólans. Nemendur í húsasmíða-, málm- og vélstjórnargreinum munu smíða grind undir sólarsellurnar og nemendur í rafiðn- og vélstjórnargreinum munu koma þeim fyrir og tengja í samvinnu við sérfræðinga frá Orkubúi Vestfjarða og Bláma. Nemendur í ýmsum öðrum námsgreinum munu vinna ýmis verkefni í tengslum við sólarorkuverið. Þannig verður verkefnið bæði hluti af þverfaglegum áfanga sem skólinn mun hanna en sömuleiðis skapast möguleikar í hinum ýmsu áföngum til að tengjast verkefninu, bæði bóklegum og verklegum.

Verkefnið fer af stað á vordögum og verður komið á fulla ferð næsta haust.

DEILA