Matvælaráðuneytið: úrskurðar um sekt Arnarlax um miðjan febrúar

Höfuðstöðvar Arnarlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælaráðuneytið stefnir að því að öllu óbreyttu að birta úrskurð sinn um miðjan febrúarmánuð um 120 m.kr. stjórnvaldssekt Matvælastofnunar á Arnarlax.

Í nóvember 2022 lagði Matvælastofnun stjórnvaldssekt á Arnarlax ehf. upp á kr. 120.000.000 fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokfiski.

Við slátrun úr sjókví 11 við Haganes í Arnarfirði í október 2022 varð ljóst að fyrirtækið gat ekki gert grein fyrir afdrifum 81.564 laxa hið minnsta segir í frétt Mast um málið.

Alls hafði 132.976 löxum verið komið fyrir í kvínni í október 2020 og júlí 2021. Skráð afföll voru 33.097 fiskar en í október 2022, þegar slátrun var lokið úr kvínni, reyndist fjöldinn sem kom upp úr kvínni hins vegar vera aðeins 18.315 laxar.

Tildrög málsins voru að Arnarlax tilkynnti í ágústlok 2021 að gat hefði fundist á umræddri sjókví. Þegar slátrun var lokið upp úr kvínni í október varð ljóst að ekki var hægt að gera grein fyrir afdrifum rúmlega 80 þúsund laxa. Mast hóf þá rannsókn og segir að veruleg frávik hafi orðið í fóðurgjöf í kví 11 frá því í júní 2021, eða tveimur mánuðum áður en tilkynnt var um gat á kvínni síðastliðið sumar, sem hefðu átt að vekja sterkar grunsemdir fyrirtækisins um að eitthvað alvarlegt væri á seyði. Matvælastofnun telur aðgæsluleysi Arnarlax hafi verið vítavert og afleiðingar þess mjög alvarlegar.

Arnarlax kærði stjórnvaldssektina til Matvælaráðuneytisins og nú rúmlega ári síðar upplýsir Matvælaráðuneytið að von sé á úrskurði þess um miðjan næsta mánuð. Úrskurður ráðuneytisins er endanlegur á stjórnsýslustigi en unnt er að bera hann undir dómstóla.

Samkvæmt ákvæði í lögum um fiskeldi getur Matvælastofnun lagt á stjórnvaldssekt frá 100 þús kr. að 150 m.kr. vegna tilgreindra brota, ma. vegna brota á skyldu til að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokufiski.

 

enginn lax hefur veiðst í laxveiðiá

Meðalþyngd eldislaxanna í umræddri kví var um 900 gr. að því er upplyst er í grein Ragnars Jóhannessonar, rannsóknastjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun í grein hans sem birt var á bb.is og í Bændablaðinu í mars 2023. Ragnar hefur umsjón með áhættumati erfðablöndunar og segir hann að 92 laxveiðiár á landinu séu í áhættumatinu, þar af 12 á Vestfjörðum. Enginn af 81.564 löxum kvíarinnar hefur veiðst í þeim ám. Árið 2022 veiddust 25 eldislaxar úr þessu stroki í Arnarfirði, flestir í frárennslu Mjólkárvirkjunar. Búast hefði mátt við samkvæmt forsendum áhættumatsins að veiða 40 laxa úr þessu stroki eftir einn vetur í sjó.

Á árinu 2023 spáir áhættumatið fyrir um að veiða 23 strokulaxa og þriðja veturnn 15 laxa. Alls 77 laxa úr strokinu sem er innan við 0,1%. Telur Ragnar að þetta sýni að áhættumatið sé spálíkan sem sé raunhæft.

DEILA