Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthlutaði 37,8 milljörðum króna

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthlutaði í fyrra 37,8 milljörðum króna til sveitarfélaga samkvæmt yfirliti sem birt hefur verið. Hæsta fjárhæðin fer til sveitarfélaga á Suðurlandi 6,7 milljarðar króna og á Norðurlandi eystra en þangað fóru 6,1 milljarður króna. Til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur fóru 5,3 m.kr. og á Suðurnesjum 5,0 milljarðar krónur. Til Vesturlands voru greiddir 4,1 milljarðar króna.

Til sveitarfélaga á Vestfjörðum fóru 2,9 milljarðar króna, sama fjárhæð til Austurlands og 2,6 milljarðar króna voru greiddar til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Á Vestfjörðum fór langhæsta fjárhæðin til Ísafjarðarbæjar eða 1.162 m.kr. Vesturbyggð fékk næsthæstu upphæðina 462 m.kr., Bolungavíkurkaupstaður 363 m.kr. og Strandabyggð 335 m.kr. Framlög til Súðavíkurhrepps voru 161 m.kr., til Reykhólahrepps 272 m.kr., til Tálknafjarðarhrepps 105 m.kr., Kaldrananeshrepps 50 m.kr. og 14 m.kr. til Árneshrepps.

Um er að ræða greiðslur til ýmissa verkefna. Hæstu fjárhæðirnar eru 12,8 milljarðar króna til almennrar jöfnunar útgjalda , 12,7 milljarðar króna til reksturs grunnskóla og 6,2 milljarðar króna til jöfnunar tekna af fasteignaskatti.

DEILA