Ísafjarðarbær: Starfshópur um málefni leikskóla

Leikskólinn Sólborg. Mynd: Ísafjarðarbær.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í desember að skipa starfshóp um skipulag og starfsumhverfi í
leikskólum í Ísafjarðarbæ. Tilefnið er að miklar breytingar hafa átt sér stað í starfsumhverfi leikskóla með
tilkomu nýrra kjarasamninga, styttingu vinnuvikunnar og með inntöku barna niður í 12 mánaða aldur. Það er mat leikskólastjórnenda að álag á starfsmenn hafi aukist og að veikindi eru tíðari þar en á öðrum stofnunum sveitarfélagsins og erfitt að ráða nýtt fólk til starfa á haustin.

Megin hlutverk starfshóps er að:
* greina núverandi stöðu leikskólastarfs m.t.t. gæða faglegs starfs, starfsánægju og stöðugleika í starfsumhverfi bæði barna og starfsfólks.
* skoða nýtingu leikskólaplássa og meta mögulegar leiðir til breytinga á núverandi skipulagi leikskólastarfs.
* greina íbúafjölda með tilliti til fjölgunar barna frá 12 mánaða í Ísafjarðarbæ næstu fimm árin með tilliti til núverandi innviða.

* útfæra og sammælast um tillögur sem lagðar verða fyrir fræðslunefnd og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Alls eru 7 í starfshópnum og í síðustu viku voru Tara Óðinsdóttir og Kristrún Halla Gylfadóttir kosnar sem fulltrúar foreldra.

Aðrir í starfshópnum eru:

Finney Rakel Árnadóttir, bæjarfulltrúi,
Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi,
Helga Björk Jóhannsdóttir, leikskólastjórnandi,
Hildur Sólmundsdóttir, leikskólakennari,
Sigríður Brynja Friðriksdóttir, fulltrúi ófaglærðra starfsmanna.

Samstarfshópurinn skal ljúka störfum fyrir lok maí 2024.

DEILA