Hjúkrunarheimili: sveitarfélög hætti að greiða 15% af stofnkostnaði

Fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Áformað er nú að ríkið sjái að öllu leyti um öflun húsnæðis undir rekstur hjúkrunarheimila í gegnum leigusamninga við fasteignafélög og aðra sérhæfða aðila á grundvelli útboða. Tillögur starfshóps þessa efnis voru kynntar fyrir ríkisstjórn á dögunum.

Núverandi fyrirkomulag er þannig að ríkið greiðir 85% af stofnkostnaði og sveitarfélög 15%. Þá greiða rekstraraðilar lágt gjald fyrir afnotin af húsnæðinu sem á að duga fyrir kostnaði og minni háttar viðhaldi. þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að viðhaldsskuld hefur myndast.

Lagt er til í tillögum starfshópsins að greitt verði húsnæðisgjald sem standi undir viðhaldskostnaði, stofnkostnaði, fjármagnskostnaði og afskriftum. Greint verði á milli þjónustunnar og reksturs húsnæðisins og að fasteignafélögum og öðrum sérhæfðum aðilum verði gefinn kostur á að byggja og reka hjúkrunarheimili á grundvelli útboða. Sveitarfélögin hætti að taka þátt í uppbyggingu hjúkrunarheimilanna og ríkið eitt beri ábyrgð á fjármögnun vegna húsnæðisins.

Starfshópurinn vill að athugað verði hvort þurfi að endurskilgreina þurfi kostnaðarþátttöku íbúa á hjúkrunarheimilum. Horfa þurfi til kosta og galla við núverandi fyrirkomulag þar sem íbúar greiða þegar fyrir húsnæðisþáttinn og mögulegra valkosta við það. Verði tekið upp fyrirkomulag þar sem íbúar greiði leigu verði grundvöllur gjaldtöku ítarlega skilgreindur m.a. neð tilliti til jafnræðis og skoðað að taka upp stuðningskerfi vegna húsnæðis sem lúti almennum reglum.

Fram kemur í skýrslunni að búist er við því að fram til 2040 þurfi 1.591 nýtt hjúkrunarrými en rýmin voru í maí 2023 alls 2.951. Árlega þurfi því að meðaltali eitt 94 rýma hjúkrunarheimili að bætast við.

Fjárfestingarþörfin er talin vera um 104 milljarðar króna fram til 2040 og hlutur sveitarfélaganna af því er 15% sem er um 15,6 milljarðar króna.

Í starfshópnum voru þrír fulltrúar frá hvoru ráðuneyti.

DEILA