Háafell: leyserbúnaður fjarlægir laxalús

Háafell hefur fjárfest í nýjum Stingray leyser búnaði gegn laxalús.

Það er norska hátæknifyrirtækið Stingray Marine Solutions AS sem hefur þróað tækni sem byggir á myndgreiningartækni og notast við gervigreind til að fjarlægja lýs af laxi í sjókvíaeldi með leysergeislum. Háafell segir frá því í gær að í dag séu yfir 1000 slík leysertæki í notkun í Noregi sem skjóta lýs af laxi með mjög lofandi árangri.

Auk þess að fjarlægja lýs af laxi býr búnaðurinn yfir myndgreiningartækni við talningu á lús, hugbúnað til þyngdarmælinga og mælinga ýmissa fleiri lífræðilegra þátta án inngripa fyrir fiskinn.

Starfsmenn Háafells hafa í nokkur misseri fylgst með tækninni og heimsóttu í desember síðastliðnum eldisfyrirtæki í N-Noregi sem nota framangreind leysertæki þar sem umhverfisaðstæður eru tiltölulegar líkar því sem Háafell vinnur við. Í framhaldinu gerði fyrirtækið samning við Stingray á fyrstu tækjunum sem væntanleg eru hingað til lands síðla vors.

Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells: „Við erum mjög ánægð með að hafa náð samkomulagi við Stingray og stolt að vera fyrsta fyrirtækið á Íslandi til þess að taka þessa snjöllu lausn í notkun sem við bindum miklar vonir við. Um er að ræða umhverfisvæna leið til þess að berjast við lúsina og er sömuleiðis fyrirbyggjandi aðgerð sem er mjög í takt við grunnstefnu Háafells um að ganga vel um Djúpið og tryggja sem besta velferð laxins.“

John Arne Breivik, framkvæmdastjóri Stingray: „Við í Stingray höfum hrifist af sýn og metnaði Háafells í velferðar- og umhverfis málum sem rýmar vel við stefnu okkur um að hjálpa eldisfyrirtækjum á Íslandi á sjálfbæran hátt. Ég er sannfærður um að okkar tækni muni geta styrkt íslenskt fiskeldi sem umhverfisvæna matvælaframleiðslu í sínum hreinu fjörðum til framtíðar með aukna velferð eldisfisksins að leiðarljósi.“

Reiknað er með að fyrsta sendingin af leyserum verði komin til landsins í vor og verða þeir þá strax settir út í Kofradýpi í Ísafjarðardjúpi.

Myndir af leysertækinu. Mynd:Háafell.

DEILA