Háafell: hyggur á útsetningu seiða í Seyðisfjörð í vor

Mynd úr matsskyldufyrirspurn Háafells.

Háafell hefur sent fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um það hvort gera þurfi sérstakt umhverfismat fyrir þá tímabundnu breytingu að hafa tvo árganga eldislax á sama kvíaeldissvæði. Um er að ræða svæði utan Álftafjarðar og Seyðisfjarðar. Í matsskýrslu fyrir laxeldi Háafells í Ísafjarðardjúpi, sem unnin var, er gert ráð fyrir að sami árgangur lax sé í öllum kvíastæðum á þessu svæði.

Nú vill Háafell fá samþykkt að setja út í Seyðisfirði í vor seiði en fyrir er í Kofradýpi kvíastæði með seiðum sem sett voru út í fyrra. Ástæðan er að ekki er útlit fyrir að minnsti fiskurinn í Skötufirði verði tilbúinn til slátrunar fyrr en í ágúst og síðan þarf að gera ráð fyrir að hvíla svæðið áður en næstu seiði fara í kvíarnar.

Frávik frá matsskýrslu vegna eldis á árgangi 2024 í Seyðisfirði myndi vara frá vori 2024 til vorsins 2026.

Fjarlægðin frá kvı́aþyrpingum í Seyðisfirði yfir í kvı́aþyrpingar í Ytra-Kofradýpi og Skötufirði er í báðum tilvikum meira en tilskyldir 5 km sem draga verulega úr líkum á að sjúkdómar berist á milli eldissvæða.

Fyrirhugað er að setja út 250.000 seiði í maı́ 2024 og 300.000 seiði í september sama ár. Gert er ráð fyrir að seiðin verði um 200 g við útsetningu ı́ kvı́ar í Seyðisfirði. Seiðin fari í fjórar eldiskvíar.

Fiskurinn verður síðan alinn í Seyðisfirði yfir 25-27 mánaða tímabil, frá maí 2024 fram til sumars 2026.

Gert er ráð fyrir að hámarki verði um 1.870 tonn ı́ kvı́unum þegar slátrun hefst ı́ nóvember 2025.

Skipulagsstofnun sendir áformin til umsagnar áður en stofnunin tekur ákvörðun um það hvort breytingin er matsskyld. Frestur til athugasemda er til 5. febrúar 2024.

Skipulags- og mannvirkjanefnd tók málið fyrir á fundi sínum í vikunni til kynningar.

DEILA