Fiskeldi: vantar ákvæði í reglugerð um ljósastýringu og neðansjávareftirlit

Frá laxeldi í Patreksfirði.
Frá laxeldi í Patreksfirði.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra birti í nóvember á síðasta ári í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingu á reglugerð um fiskeldi. Er þar lagt til að bæta við reglugerðina ákvæðum um ljósastýringu og neðansjávareftirlit. Segir að rekstrarleyfishafi skuli við eldi frjórra laxa í sjókvíaeldi tryggja að lax verði ekki kynþroska á eldistíma og sé skylt til þess að viðhafa neðansjávareftirlit með ástandi netpoka á a.m.k. 30
daga fresti. Sé laxinn orðinn 4 kg að þyngd verði neðansjávareftirlitið skylt á sjö daga fresti. Þá er í þriðja lagi lagt til að bæta við ákvæðum um tíðni og umfang lúsatalningar.

Með því að bæta þessum ákvæðum við reglugerðina verður brot á þeim refsivert samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og getur Matvælastofnun þá beitt eftir atvikum dagsektum eða stjórnvaldssektum.

Benda þessar breytingartillögur á reglugerðinni til þess að það skorti nú heimildir til að beita refsingum ef út af ber við ljósastýringu og neðansjávareftirlit.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sem gæta hagsmuna fiskeldisfyrirtækja, gera ekki ágreining um breytingarnar að öðru leyti en því að þær gangi of langt og vilja milda tillögurnar. Ekki sé raunhæft að skylda rekstraraðila til þess að enginn lax verði kynþroska og vill frekar orða ákvæðið þannig að skylda verði til að halda hlutfalli kynþroska laxa í lágmarki á eldistíma. Varðandi neðansjávareftirlitið vill SFS hafa það en ekki eins títt og benda á að samkvæmt upplýsingum sem SFS hafi aflað frá samtökum fiskeldisframleiðenda í Noregi, Færeyjum og Skotlandi sé hvergi annarsstaðar að finna dæmi þess að viðhaft sé svo títt neðansjávareftirlit. Vísa þau til upplýsinga frá Fiskistofu Noregs sem benda til þess að það auki hættuna á stroki og vilja frekar taka upp skyldu á neðansjávareftirliti eftirliti við tilteknar aðstæður.

Umsagnarfresti lauk 12. desember sl. en reglugerðinni hefur ekki enn verið breytt.

DEILA