Falur Jakobsson bátasmiður

Jakob Falsson,Mildríður Falsdóttir,Falur Jakobsson og Sigmundur Falsson

Falur Jakobsson var fæddur í Þaralátursfirði á Hornströndum árið 1872. Hann bjó með konu sinni Júdit Kristjánsdóttur í Barðsvík á Hornströndum 1894 – 1906 og stundaði þar búskap og bátasmíðar. Júdit lést af barnsförum 1906. Falur lést árið 1936.

Árin 1906 til 1907 var Falur húsmaður á Horni en flutti þá til Bolungarvíkur við Ísafjarðadjúp og stundaði þar smíðar enda maðurinn völundur á tré og járn.

Ekki hefur tekist að finna nöfn báta, sem Falur smíðaði í Barðsvík og er það að vonum því að um nafnlausar skektur og árabáta hefur verið að ræða. Eftir Mildfríði dóttur hans er haft í „Grunnvíkingabók“ l bindi bls. 260 að Fransmenn hafi stundum hleypt skútum sínum að landi í Barðsvík og keypt skektur sem faðir hennar hafði smíðað.

Óljóst er með öllu hve marga báta Falur smíðaði á meðan hann var í Barðsvík en gera má ráð fyrir að umtalsverð hafi sú smíði verið fyrst Fransmenn gerðu sér ferð inn á Barðsvíkina til bátakaupa af honum.

Ljóst er af þessu að Falur Jakobsson hefur verið þekktur langt út fyrir landsteinana og vel má hugsa sér Fal sem fyrsta Íslendinginn sem framleiddi báta til útflutnings.

Eftir komuna til Bolungarvíkur þá smíðaði Falur fjölda báta. Starfaði hann í fyrstu með Jóhanni Bjarnasyni bátasmiði en þegar sjógangur skolaði í burtu verkstæði Jóhanns þá byggði Falur sitt eigið verkstæði árið 1912.

Falshús í Bolungarvík byggt árið 1932

Seinna naut Falur aðstoðar sona sinna Jakobs og Sigmundar við smíðarnar.

Haft hefur verið fyrir satt að enginn ófaglærður skipasmiður hér á landi hafi smíðað fleiri vélbáta en Falur og þótti lán fylgja fleytum hans. Á örðum og þriðja áratug síðustu aldar má segja að mest allur vélbátafloti Bolvíkinga hafi verið smíðaður af honum og sonum hans.

Bátar Fals þóttu afbragðs sjóskip, léttbyggðir og fallegir. Í bátum hans voru bönd grönn en styrkleikinn náðist með því að hafa skemmra á milli þeirra en almennt tíðkaðist. Lögun og gerð bátanna var miðuð við að hægt væri að taka þá á þurrt eftir hvern róður sem var nauðsynlegt við hafnlausa ströndina.

Burðargeta báta Fals var meiri en ætla mátti við fyrstu sýn því þeir voru botnmiklir og léttbyggðir.

Eftir því sem best er vitað þá var Falur eini bátasmiðurinn í Bolungarvík, á öðrum, þriðja og fram á fjórða áratug síðustu aldar, sem smíðaði þar þilfarsbáta.

Af vefsíðunni aba.is

DEILA