Braut Matvælastofnun gegn stjórnsýslulögum?

Upphaflega fréttin á Stundinni.

Í stjórnsýslukæru Arnarlax til Matvælaráðuneytis, þar sem kærð er 120 m.kr. sektarákvörðun Matvælastofnunar frá 25.11. 2022 segir að stofnunin hafi brotið gegn andmælareglunni , sem lögfest er í stjórnsýslulögum. Þar segir að aðili máls skuli eiga rétt á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun. Rakin er gangur málsins, sem var þannig að Matvælastofnun tilkynnti 7. nóv. 2022 um fyrirhugaða sekt og gaf Arnarlax frest til 23. nóvember til andsvara. Svörum var skilað þann dag kl 11:44 og fylgiskjöl send síðar sama dag.

Fyrr um morguninn eða nákvæmlega kl 10:50 birtist á Stundinni frétt með fyrirsögninni: „Lagði sögulega sekt á laxeldisfyrirtækið Arnarlax fyrir ranga upplýsingagjöf“. Vitnað er í deildarstjóra fiskeldis hjá Mast. Segir í kæru Arnarlax að þetta bendi til þess að Matvælastofnun hafi þá þegar verið búin að ákveða að beita stjórnvaldssektun áður en andmælin voru komin og þá án þess að kynna sér efni þeirra. Spurt er hvort andmælarétturinn hafi aðeins verið til málamynda og meðferð málsins í andstöðu við stjórnsýslulög.

Rakið er í kærunni að vegna fréttarinnar hafi Arnarlax sent athugasemd til forstjóra Matvælastofnunar, Hrannar Ólínu Jörundsdóttur. Hún hafi svarað því til að ekki væri rétt haft eftir starfsmanni Mast og að beiðni hafi verið send til Stundarinnar um leiðréttingu á fréttinni, málið væri enn í rannsókn og engin ákvörðun lægi fyrir.

Matvælastofnun tilkynnti um ákvörðun sína tveimur dögum síðar 25.11. 2022 og þykir Arnarlaxi þetta afar skjót málsmeðferð sem bendi til þess að ákvörðunin hafi legið fyrir áður en andmælafresturinn rann út, „rétt eins og áðurnefnd frétt Stundarinnar er til vitnis um.“

Kæra Arnarlax var sent til Matvælaráðuneytisins 22. febrúar 2023 og samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er stefnt að því að afgreiða hana í næsta mánuði en þá verður ár liðið frá því að hún var send.

Fréttin á Stundinni eftir að henni var breytt.

DEILA