Bíldudalur: fjöldahjálparstöð verði í Baldurshaga

Baldurshagi. Mynd frá Vestfjarðavíkingnum.

Vesturbyggð og Rauði krossinn hafa gert samkomulag um afnot af félagsheimilinu Baldurshaga sem fjöldahjálparstöð á Bíldudal. Það var mat ofanflóðadeildar Veðurstofunnar að Baldurshagi myndi henta betur til fjöldahjálpastöðvar vegna varnargarða sem þegar hafi risið en íþróttahúsið Bylta kom einnig til greina.

Það getur komið til þess að opna þurfi fjöldahjálparstöð á hættutímum vegna náttúruhamfara eða annarra alvarlegra atvika og liggur þá fyrir hvar hún verður.

Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti samninginn á fundi sínum á mánudaginn. Í samningnum kemur fram að kostnaður vegna opnunar og reksturs fjöldahjálparstöðvar greiðist af Rauða krossinum og/eða
ríkissjóði.

Rauði krossinn leggur til allan búnað, veitir fræðslu til starfsfólks þegar þörf er á, heldur námskeið í starfrækslu fjöldahjálparstöðva fyrir sjálfboðaliða og aðra áhugasama. Námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu.

DEILA