Ásætuvarnir í Arnarfirði – Vesturbyggð vill umhverfismat en Ísafjarðarbær ekki

Kvíar í Arnarfirði.

Skipulagsstofnun hefur sent Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð til umsagnar erindi frá Arctic Fish þar sem fyrirtækið gerir grein fyrir áformum um að taka í notkun svokallaðar ásætuvarnir á eldiskvíum í Arnarfirði.

Ásætur á kvíum eru að mestu gróður og aðrar lífverur sem setjast á net og búnað eldiskvía og vaxa þar og valda auka álagi á búnaðinn.

Verkfræðistofan Efla hefur unnið viðamikla skýrslu um ásætuvarnirnar og þar kemur fram að til þess að viðhalda heilbrigði eldisfiska í árangursríku sjókvíaeldi þurfi hreinan og súrefnisríkan sjó sem flæði óhindrað í gegnum netin. Vegna þess er nauðsynlegt að netin séu hrein og án ásæta.

Ásætur á nótum í kvíum skapa aukið lífrænt álag, aukið álag á búnað og eykur slit. Ásætur og háþrýstiþvottur á nótum til að losa ásætur skapa streitu, skaða og geta leitt til affalla á eldisfiskum. Ásætuvarnir geta komið í staðinn fyrir stöðugan háþrýstiþvott á nótum og þar með bætt aðbúnað í kvíum.

Arctic Fish áformar að nota ásætuvarnir sem innihalda ECONEA® (Tralopyril) og Zinc Pyrithione á nætur eldiskvía fyrirtækisins í Arnarfirði. Notkun ásætuvarna sem innihalda slíka blöndu krefst breytingar á starfsleyfi. Skipulagsstofnun metur hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða Eflu er að áhrifin á lífríki í sjó eru metin nokkuð neikvæð og áhrif á heilsu manna eru metin óveruleg. Heildarniðurstaða Arctic Fish á grundvelli skýrslu Eflu er að notkun ásætuvarnanna fylgi ekki verulega neikvæð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Spurningin er því hvort fyrirliggjandi umhverfismat á sjókvíaeldinu í Arnarfirði dugi til eða hvort gera þurfi sérstakt umhverfismat með þessari breytingu.

Ísafjarðarbær: þarf ekki

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók erindið fyrir í síðustu viku og ályktaði að nefndin telur að nægjanlega sé gert grein fyrir framkvæmdinni í framlögðum gögnum framkvæmdaaðila og telur að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat.

Vesturbyggð: vill umhverfismat

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar tók einnig erindið fyrir í sí’ustu viku. Þar kveður við annan tón. Ráðið segir að í skýrslu Eflu sé ekki lagt mat á áhrif á aðrar tegundir í firðinum, svo sem rækju og botnfisk að öðru leyti en að áhrifin séu metin staðbundin og safnist ekki upp í lífkeðjunni.

Að mati skipulags- og umhverfisráðs Vesturbyggðar liggur því ekki fyrir í fyrirliggjandi gögnum hvort notkun ásætuvarnanna, geti haft í för með sér óafturkræf áhrif á náttúru í Arnarfirði.

„Skipulags- og umhverfisráð telur því eðlilegt að framkvæmdin fari í umhverfismat vegna þeirrar óvissu sem er um langtíma áhrif þeirra efna sem nota á sem ásætuvarnir á lífríki fjarðarins sem og mögulegra sammögnunaráhrifa vegna fjölda eldissvæða í Arnarfirði.“

DEILA