Árneshreppur hluti af gefum íslensku séns -íslenskuvænt samfélag

Skynja má aukinn hljómgrunn fyrir því starfi sem Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag hefir innt af hendi. Í október síðastliðinn hlaut átakið til að mynda Evrópumerkið. Árið 2022 hlaut svo átakið viðurkenningu íslenskrar málnefndar.

Það er allt gott og blessað. En meira er þó um vert þó þegar aðilar ákveða að leggja átakinu lið, eða gerast beinir þátttakendur. Góðu heilli hefir fjöldi móðurmálshafa og þeirra sem kunna mjög góð skil á íslensku og leggja sit lóð á vogarskálina farið fjölgandi. Mjög jákvæð þróun. Einnig telst jákvætt þegar sveitarfélög gerast beinn aðili að átakinu. Hingað til hafa tvö sveitarfélög verið aðilar að átakinu. Súðavík og Ísafjarðarbær. 30. nóvember bættist svo Árneshreppur í hópinn þegar þátttökuaðild var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á sveitarstjónarfundi. Það verður að teljast einkar ánægjulegt.

Í októbermánuði síðasta árs var haldinn kynningarfundur á átakinu sem bar þennan ávöxt. Líklegt verður að teljast að Árneshreppur muni í kjölfarið standa að viðburðum til að auk vitund fólks fyrir máltileinkun íslensku sem annars máls þótt einnig sé óhætt að halda fram að þar séu þessi mál í fínum farvegi nú þegar. Það má samt alltaf á sig blómum bæta.

Er og vonandi að fleiri aðilar, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, gerist aðilar að átakinu. Vert er að minnast á að sé áhugi fyrir hendi að fá átakskynningu fer best á því að senda línu á islenska(hja)uw.is. Kynning er auðsótt mál.

Þess má svo geta að 8. janúar er Þriðja rýmið í Bókasafninu á Ísafirði og 10. Janúar er hraðíslenska á Bryggjukaffi á Flateyri. Dropinn holar steininn.

Með íslenskuvænum kveðjum,

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

DEILA