Vöxtur Kerecis stendur upp úr

Kerecis, Ísafirði.

Þegar litið er yfir viðburði líðandi árs á Vestfjörðum fer ekki á milli mála að sala ísfirska fyrirtækisins Kerecis til Copolplast fyrir 1,3 milljarða bandarískra dollara , jafnvirði um 180 milljarða króna stendur upp úr. Salan staðfesti virði fyrirtækisins og varð það eitt það verðmætasta á landinu. Virði þess hafði fjórtánfaldast á skömmum tíma. Í janúar 2019 stóð yfir hlutafjárauking og var það metið á um 12 milljarða króna á núverandi verðlagi. Fjóru og hálfu ári síðar var það um 180 milljarðar króna.

Forstjóri nýja eigandans Coloplast er Kristian Villumsen og hann er nú stjórnarformaður í Kerecis. Guðmundur Fertram Sigurjónsson er áfram forstjóri Kerecis og þeir telja vaxtarmögleika Kerecis á næstu árum mjög mikla. Á Ísafirði eru tvær verksmiðjur fyrirtækisins og stefnt að því að byggja 6000 fermetra hús undir þá þriðju á Suðurtanga sem verði tekið í notkun á árinu 2026. Í sumar sagði Guðmundur Fertram í viðtali við Bæjarins besta að um 70 starfsmenn væru á Ísafirði og fyrirsjáanlegt að þeim muni fjölga með vaxandi umsvifum félagsins.

Guðmundur Fertram upplýsti einnig að um þriðjungur til fjórðungur af söluverði Kerecis hefði verið í eigu aðila á Vestfjörðum. Það jafngildir 45 – 60 milljörðum króna. HG í Hnífsdal var meðal stærstu hluthafa með 2,1%. Félagið FnF ehf í eigu Guðmundar Fertram átti 5,9% hlutafjár og er skráð á Ísafirði. Meðal annarra vestfirskra eigenda eru Klofningur á Suðureyri, Oddi ehf á Patreksfirði og félag í eigu Gísla Jóns Hjaltasonar á Ísafirði. 

Á fáum árum hafa nokkur fyrirtæki á Vestfjörðum orðið meðal þeirra verðmestu á landinu og hafa öll mikinn efnahagslegan styrk. Kerecis er stærst þessara fyrirtækja en önnur eru fiskeldisfyrirtækin Arnarlax og Arctic Fish. Þau eru einnig metin á marga tugi milljarða króna hvort um sig. Fjórða fyrirtækið í þessum hópi er HG ásamt Háafelli, en með árangursríku laxeldi í Ísafjarðardjúpi hefur verðmæti þess tekið stórt stökk. Fleiri fyrirtæki má nefna sem hafa verið að eflast á undanförnum árum eins og Jakob Valgeir ehf og Odda hf.

Jákvæðar breytingar á Vestfjörðum í atvinnulífi og íbúaþróun eru bornar uppi af öflugum fyrirtækjum sem öll byggja starfsemi sína á því að nýta auðlindir í hafinu við Vestfirði. Það eru miklir möguleikar til staðar sem gefa vonir um áframhaldandi vöxt í atvinnustarfsemi í fjórðungnum og umtalsverða íbúafjölgun. Það er vor á Vestfjörðum.

-k

DEILA