Vesturbyggð: 102 tonn í byggðakvóta

Patreksfjarðarhöfn í byrjun desember sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt Vesturbyggð um byggðakvóta til byggðarlaga innan sveitarfélagsins á yfirstandandi fiskveiðiári. Samtals koma 102 þorskígildistonn til þriggja byggðarlaga sem er aukning frá síðasta fiskveiðiári þegar byggðakvótinn var 85 tonn.

Til Bíldudals eru nú 40 tonn sem er minnkun um 15 tonn. Fimmtán er úthlutað til Brjánslæjar sem er óbreytt frá fyrra ári og til Patreksfjarðar er úthlutað 47 tonnum en þau voru aðeins 15 tonn síðast.

Hafna- og atvinnumálaráð samþykkti að sérreglur varðandi úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í Vesturbyggð verði óbreyttar frá síðasta fiskveiðiári á fiskveiðiárinu 2023/2024. Bæjarstjórn staðfesti þessa ákvörðun á fundi sínum á miðvikudaginn.

Skal byggðakvótanum skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins og fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins.

DEILA