Þrjár verslanir fá styrk á Vestfjörðum

Sjö dagvöruverslanir á fámennum markaðssvæðum fá á næsta ári stuðning samtals 15 milljónir króna. Verkefnastyrkirnir eru veittir á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. 

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra staðfesti þessar tillögur valnefndar um verkefnastyrki.

Verslanirnar sem hljóta styrki að þessu sinni skipta á milli sín 15 milljónum króna í verkefni á næsta ári. Hæsta styrkinn, 3 milljónir fær Verzlunarfélag Árneshrepps, Kríuveitingar í Grímsey fá 2,5 milljónir, Verslunar og pöntunarþjónusta á Bakkafirði, Búðin á Borgarfirði eystra, Hríseyjarbúðin og Verslunarfélag Drangsness fá hver um sig tvær milljónir og Verslunin á Reykhólum hlýtur 1,5 milljón til undirbúnings verslunarrekstri þar. 

Markmið styrkjanna er að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum, fjarri stórum byggðakjörnum á fámennum markaðssvæðum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. Alls bárust ellefu gildar umsóknir. 

Að sögn Sigurðar Árnasonar formanns valnefndar og sérfræðings á Byggðastofnun hafa þessir styrkir verið veittir árlega í tengslum við byggðaáætlun 2018-2024. Rekstur dagvöruverslana segir Sigurður vera mikilvæga grunnþjónustu í hverju samfélagi. 

Auk Sigurðar sátu í valnefndinni þau Elín Gróa Karlsdóttir verkefnisstjóri hjá Ferðamálastofu og  Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. Með nefndinni vann einnig Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun. 

Frá opnun verslunarinnar 2019. Mynd: Kristján Þ. Halldórsson, Byggðastofnun. 

DEILA