Þrettán þúsund milljónir

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Þetta haust hefur farið sérstaklega blíðum höndum um okkur Vestfirðinga þegar horft er til veðurs og færðar. Við erum farin að sjá töluverð merki um aukin samskipti og samstarf milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða nú þegar nýr vegur á Dynjandisheiðinni lengist meir og meir. Um síðustu helgi voru vel sóttir jólamarkaðir bæði í Dokkunni á Ísafirði og í Félagsheimilinu á Patreksfirði þar sem fyrirtæki bæði frá norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum voru að selja afurðir sínar á báðum stöðum.  

Á þessu hausti hefur við lauslega talningu verið hægt að sjá og njóta afraksturs 13 milljarða fjárfestinga á Vestfjörðum.  Þarna er um að ræða samgönguframkvæmdir eins og brúna yfir Þorskafjörð, opnun vegarins um Teigsskóg og inn Djúpafjörð og nýja kafla á Dynjandisheiðinni. Síðan er stórframkvæmd Arctic Fish, laxasláturhús í Bolungarvík sem kostaði 5 milljarða og um næstu helgi verða Stúdentagarðar Háskólaseturs Vestfjarða opnaðir.  

Mikið hefur verið um mannamót, fundi, ráðstefnur og menningarviðburði í nóvember. Nefna má viðburði sem við hér á Vestfjarðastofu höfum tekið þátt í  eins og málþing um atvinnuuppbyggingu og þróun íbúðamarkaðar og spjall um græna styrki. Einnig staðfund Sóknarhóps Vestfjarðastofu um hvernig efla má ímynd Vestfjarða. 

Ímynd svæðisins hefur verið nokkuð til umræðu meðal fólks þetta haust meðal annars vegna háværrar umræðu um laxeldi. Umræðan hefur ekki einvörðungu áhrif á þau fyrirtæki sem starfa í greininni heldur nær hún stundum til þeirra sem starfa innan hennar og jafnvel þarf stundum ekki meira til en vera frá svæðinu til að eiga von á aðdróttunum í einhverri mynd. Þessi tiltölulega unga atvinnugrein er ekki hafin yfir gagnrýni, en það er góður siður fara í málefnið en ekki manninn þegar gagnrýni er annars vegar.

Áhrifa umræðunnar gætir líka í ótta um afkomu og búsetu þegar þess er krafist í fullri alvöru að atvinnugrein sem hefur átt stóran þátt í viðsnúningi í byggðaþróun á svæðinu verði bönnuð. Á Vestfjörðum má gera ráð fyrir að allt að 10% starfandi íbúa vinni við eða tengt fiskeldi og á sunnanverðum Vestfjörðum eingöngu er hlutfall starfsmanna og þeirra sem starfa í atvinnugreinum tengdum fiskeldi umtalsvert hærra. 

Á fyrrnefndum staðfundi Sóknarhóps Vestfjarða kom nokkuð skýrt fram að áhrif umræðunnar á ytri ímynd Vestfjarða væru ekki endilega merkjanlega neikvæð.  Eftir stendur þó að áhrif umræðu haustsins um fiskeldi hefur líklega haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd íbúa.  

Þess vegna er mikilvægt að horfa á jákvæð áhrif uppbyggingar undanfarinna ára og að byggðaþróun er smám saman að færast í jákvæðari átt. Vestfirðingum er að fjölga aftur. Hér eru aftur byggð hús.  

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA