Tálknafjörður: stjórnarformaður fasteignafélagsins settur út úr stjórninni

Frá Tálknafirði.

Á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðar á þriðjudaginn var samþykkt tillaga Lilju Magnúsdóttur, oddvita að stjórn Fasteignafélagsins 101 Tálknafjörður ehf verði skipuð þremur fulltrúum í stað fjögurra, þ.e. Lilju Magnúsdóttur, Jenný Láru Magnadóttur og Jóhanni Erni Hreiðarssyni. Núverandi stjórnarformanni Jóni Inga Jónssyni er þar með vikið úr stjórninni. Öll eru þau sveitarstjórnarfulltrúar. Fasteignafélagið er að öllu leyti í eigu Tálknafjarðarhrepps og sér um byggingu, rekstur, eignarhald og útleigu á íbúðarhúsnæði í eigu sveitarfélagsins.

Skipað var í stjórnina að aflokum sveitarstjórnarkosningu 13. september 2022 og þá kosnir fjórir fulltrúar.

Málið var tekið á dagskrá að ósk oddvita Lilju Magnúsdóttur og þrír fulltrúar samþykkti nýja stjórnarkjörið, Jenný Lára, Lilja og Guðlaugur Jónsson. Jóhann Örn sat hjá og Jón Ingi greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Fasteignafélagið leigir eina íbúð félagsins, Túngötu 42, til Ólafs Þórs Ólafssonar, sveitarstjóra og upplýsti Bæjarins besta í síðustu viku að fjárhæð húsaleigunnar væri 68.804 kr. á mánuði verðbætt miðað við byggingarvísitölu sem væri 84.260 kr./mánuði miðað við nýjustu vísitölu.

Í rekstraryfirliti Fasteignafélagsins sundurliðað eftir íbúðum kemur fram að leigutekjur af Túngötu 42 á síðasta ári voru 1.679.434 kr. Það eru verulega umfram tekjur af leigusamningi félagsins við sveitarstjóra, sem hafa verið um 940 þúsund kr. Óskað hefur verið eftir upplýsingum um það hver hafi greitt mismuninn um 740 þúsund krónur.

Í samþykktum Fasteignafélagsins er kveðið á um leigufjárhæð skuli ákvörðuð þannig að hún standi undir afborgun lána og greiðslu kostnaðar við viðhald og rekstur viðkomandi húsnæðis og öðrum rekstrarkostnaði félagsins.

DEILA