Skógræktarfélag Ísafjarðar er með jólaskóg laugardaginn 9. desember kl. 13-15

Skógræktarfélag Ísafjarðar verður með jólatrjásölu næsta laugardag , þann 9. desember milli kl 13 og 15.

Skógræktarfélag Íslands minnir á starf félaganna sem m.a. felst í því að gefa fjölskyldum kost á að sækja sér jólatré í ræktunarstarf félaganna. Íslensk jólatré eru ilmandi fersk, vistvæn í ræktun, með lægra kolefnisspor og með því að kaupa íslenskt jólatré er stutt við skógræktarstarf í landinu, því fyrir hvert selt jólatré er hægt að gróðursetja tugi trjáa. Það þarf því ekki að hafa samviskubit yfir því að fella tréð!

Skógræktarfélag Ísafjarðar var stofnað á nýársdag 1945 og verður 79 ára gamalt næsta nýársdag.   Það var byrjað að planta innan við Stórurðina og inni í Tungudal. Alltaf hefur  verið haldið áfram að planta en með mismiklum krafti eins og gengur.  Nú er svo komið að það er næstum hægt að segja að það sé að vaxa upp samfelldur skógur í hlíðinni frá Stórurð inn í Tungudal og þaðan að Dagverðardal. Meira að segja er lundur utan við Stórurð,  það er ofan við Hlíðarveg og á hinum endanum er líka lundur í Kubbanum.

Í frétt um almennan fund í skógræktarfélaginu fyrir tveimur árum segir að frumkvöðlarnir hafi haldið að þeir væru að rækta nytjaskóg og fyrstu afurðirnar yrðu kannski girðingarstaurar og eldiviður, en að lokum smíðatimbur.  Viðhorfin hafi breyst á löngum tíma nú er litið á þetta fyrst og fremst sem útivistarskóg, stundum líka kallað yndisskógur. 

DEILA