Skemmtiferðaskip: afnám tollfrelsis getur bitnað á Vestfjörðum

Í frumvarpi fjármálaráðherra, sem er til umfjöllunar á Alþingi er m.a. lagt til að afnema tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum sem skráð eru erlendis en eru notuð í siglingum innan íslenska tollsvæðisins í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. Tillagan er rökstudd með því að vísa til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða milli aðila,“ til að mynda gististaða og veitingahúsa, auk þess sem hér kann að vera um að ræða fjárhagslega hagsmuni fyrir ríkissjóð.“ Rekstraraðilum skipanna beri því eftir lagabreytinguna að greiða aðflutningsgjöld af vistum og öðrum nauðsynjum sem koma með skipunum til landsins. Enn fremur beri þeim að greiða aðflutningsgjöld af þeim vörum sem keypt eru fyrir skipin til nota fyrir farþega og áhöfn á meðan dvalið er hér við land.

Fram kemur í þingmálinu að alls ellefu skemmtiferðaskip, sem skráð eru erlendis, hafi stundað siglingar hringinn í kringum Ísland síðastliðið sumar 2023 án þess að eiga viðkomu í erlendri höfn í hverri ferð. Ferðirnar um landið voru tæplega 60 á tímabilinu og var heildarfjöldi gesta um 16.600.

Frumvarpið snertir því lítinn hluta þeirra erlendu ferðamanna sem hingað koma og ferðast með skemmtiferðaskipum en áhrifin kunna engu að síður verða umtalsverð á Vestfjörðum. AECO eru alþjóðleg samtök skipafélaga leiðangursskipa á norðurslóðum og telja þau að farþegar með skipunum hafi verið um 29.900 og 665 komur skipanna hafi verið til 28 hafna og 8 landeiganda. Einkum eru þetta minni skip sem taka frá 13 upp í 500 farþega og hafa þau komið við á nokkrum stöðum á Vestfjörðum.

AECO telur að afnám tollfrelsisins um næstu áramót hafi alvarlegar afleiðingar. Ferðirnar frá 2024 til 2026 hafi þegar verið seldar og því ekki mögulegt að bæta aukakostnaði inn í miðaverð. Skipafélögin þurfi því að bregðast við og hafnarkoma í erlendri höfn, sem hluti af Íslandsáætlun til að tryggja tollfrelsi, gæti áfram verið möguleiki. Það myndi stytta hverja ferð á Íslandi um 2 -3 daga og því yrði væntanlega mætt með því hætta að sigla til Vestfjarða eða Austurlands.

Viking Cruises – 83 m.kr. í hafnargjöld á Ísafirði

Fyrirtækið Viking Cruises á nokkur skip í þessum hópi skipa og segir það í umsögn sinni til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að hafi skip þess siglt með nærri 25 þúsund farþega um landið í sumar og nemi viðskipti fyrirtækisins um 3,5 milljarði króna við innlenda aðila og eru þá ótalin viðskipti farþega í landi. Meðal annars þá greiddu þau um 83 milljónum króna í hafnargjöld á Ísafirði. Segir í umsögninni að ef lagabreytingin verði staðfest verði fyrirtækið að bregðast við með því að draga úr viðveru skipanna á Íslandi til þess að mæta hækkandi kostnaði sem leiðir af breytingunni. Það muni svo minnka tekjur heimamanna á hverjum stað af siglingunum.

Cruise Iceland, samtök hafna á Íslandi sem taka á móti skemmtiferðaskipum, vara einnig við þessari lagabreytingu og segja í umsögn sinni að afnám tollfrelsis geti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér á borð við flutning viðskipta til Færeyja, til dæmis vegna olíukaupa eða vegna farþegaskipta. Þá myndi það orka tvímælis ef ferðamenn og áhafnir gætu ekki verslað tollfrjálst vörur eins og aðrir ferðamenn sem koma til Íslands.

Skagfirðingar og Austfirðingar óttast áhrifin

Byggðaráð Skagafjarðar segir í umsögn um frumvarpið að afnám tollfrelsisins vinni gegn því að dreifa ferðamönnum um landið og þar með tekjum af þeim. Minni hafnir landsins og Norðurland vestra muni verða af mikilvægum tekjum. Svipaður tónn er í umsögn Hafna Múlaþings á Austurlandi sem telja að breytingin muni grafa undan áralangri uppbyggingu á þjónustu við ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum. Óttast Múlaþing að siglt verði framhjá höfnum Múlaþings.

Engin umsögn er frá sveitarfélögum á Vestfjörðum.

Uppfært kl 12:09: Ísafjarðarbær hefur skilað inn umsögn og er henni gerð skil í sérstakri frétt í dag.

DEILA