Skarfur GK666 ex Sléttanes ÍS 710

Skarfur GK 666 lætur hér úr höfn í Grindavík. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2002

Báturinn hét upphaflega Sléttanes ÍS 710 og var 268 brl. að stærð. Smíðaður fyrir Fáfni h/f á Þingeyri í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1967.

Seldur Tálkna h/f á Tálknafirði 1974 og fékk nafnið Sölvi Bjarnason BA 65. Erlingur Pétursson í Vestmannaeyjum keypti bátinn árið 1977 og nefndi Eyjaver VE 7.

1979 er Eyjaver selt Drift h/f á Neskaupstað og fékk nafnið Fylkir NK 102. Það stoppaði stutt við fyrir austan en 1980 kaupir Fiskanes h/f í Grindavík og fær þá báturinn það nafn sem hann ber á myndinni, Skarfur GK 666.

Þegar myndin var tekin var báturinn í eigu Þorbjörns-Fiskaness hf. sem í dag heitir Þorbjörn hf.

Fyrirtækið var á sínum tíma sett saman úr þremur fjölskyldufyrirtækjum, Þorbirni og Fiskanesi í Grindavík og Valdimar í Vogunum og fékk hið sameinaða fyrirtæki þá nafnið Þorbjörn Fiskanes.

Sumarið 2003 var Skarfur seldur KG fiskverkun ehf. á Rifi og fékk nafnið Faxaborg SH 207. Seld úr landi árið 2008.

Eins og kemur fram í upphafi var báturinn 268 brl. að stærð en hann var endurmældur árið 174 og varð við það 217 brl. að stærð. Hann var yfirbyggður 1984 og seinna skipt um brú og skutlengdur og var 234 brl./335 BT að stærð.

Upphaflega var 660 hestaafla Lister aðalvél í bátnum en 1981 var sett í hann 900 hestafla Grenaa.

Af skipamyndir.is

DEILA