Rafbílar borga kílómetragjald frá næstu áramótum

 Kílómetragjalds fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla í flokki fólks- og sendibifreiða verður 6 kr. fyrir rafmagns- og vetnisbíla og 2 kr. fyrir tengiltvinnbílasamkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi.

Kílómetragjaldið verður áætlað og greitt með svipuðum hætti og gjöld fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni. Kílómetragjaldið verður greitt mánaðarlega út frá áætlun um fjölda ekinna kílómetra á tímabilinu.

Gjaldtakan verður byggð á akstursáætlun á grundvelli upplýsinga sem eigendur eða umráðamenn bíla skrá inn á Ísland.is, í smáforriti eða á vefsvæði. Einnig verður þó í boði önnur skráningarleið fyrir þá sem ekki geta nýtt sér Ísland.is þar sem heimilt verður að skila upplýsingum og gögnum skriflega til ríkisskattstjóra auk þess sem hægt verður að skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu.

Á næstunni munu umráðamenn rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla geta með einföldum hætti skráð kílómetrastöðu bíla sinna á island.is þar sem jafnframt verður að finna greinargóðar upplýsingar um ferlið. Fyrsta skráning á kílómetrastöðu eftir upphaf gjaldtöku skal eiga sér stað fyrir 20. janúar 2024. Fyrsti gjalddagi greiðslna vegna gjaldtímabilsins janúar 2024 verður 1. febrúar 2024 og eindagi 14 dögum síðar.

DEILA