MÍ: undirbúningur að nýju verknámshúsi kominn á skrið

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari M.Í.

Fram kom í ræðu Dóróthea Margrét Einarsdóttir aðstoðarskólameistara MÍ við útskrift nemenda á miðvikudaginn að undirbúningur að byggingu nýs verknámshúss er nú kominn á nokkurt skrið og hefur verið skipuð verkefnastjórn sem á að vinna næstu skref. Fulltrúi skólans í verkefnastjórninni er Þröstur Jóhannesson sviðsstjóri verknáms í MÍ og húsasmíðakennari til margra ára. Ásamt Þresti sitja í verkefnastjórninni fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu og Framkvæmdasýslu ríkisins. Heiðrún sagði það væri „mikið tilhlökkunarefni að sjá þessa undirbúningsvinnu hefjast af fullum krafti og veitir okkur mikilvægan byr í seglin fyrir áframhaldandi vöxt og velferð skólans.“

 

fleiri nemendur af sunnanverðum Vestfjörðum

Í byrjun haustannar fóru nýnemar að venju í nýnemaferð og heimsóttu að þessu sinni Arnarfjörð, Bíldudal og Tálknafjörð líkt og í fyrra. Heiðrún sagði að ferðin hafi heppnast vel og „finnum við í MÍ sífellt betur hve bættar samgöngur milli norður- og suðursvæðanna skipta miklu máli þegar kemur að því að efla tengslin. Það má líka sjá í nemendahópnum en nokkuð stór hópur af Suðurfjörðunum stundar nú nám við skólann og býr hluti hópsins á heimavistinni.“

  

50 ár í vor frá fyrstu útskrift

Heiðrún vék að því í ræðu sinni að í vor verða merk tímamót í sögu skólans. 50 ár verða þá liðin frá því að fyrstu nemendur luku námi í MÍ og útskrifuðust úr Menntaskólanum á Ísafirði. Stefnt er að því að afmælinu verði gerð góð skil á útskriftardegi vorannar 25. maí 2024. Unnið er að stofnun sérstakrar afmælisnefndar til að undirbúa og skipuleggja hvernig tímamótunum verður fagnað. 

„Menntaskólinn á Ísafirði heldur áfram að vaxa og dafna og leggja stjórnendur skólans sig fram um að skólinn sé góður vinnustaður fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Þessu markmiði er m.a. fylgt eftir með gerð samskiptasáttmála sem og með reglulegum mannauðsmælingum frá HR Monitor og hefur skólinn nú hlotið viðurkenningu fyrir að vera mannauðshugsandi vinnustaður.“

DEILA