Lítið af loðnu norðan lands

Árni Friðriksson við mælingar innan um “pönnukökuís” í Grænlandssundi. Ljósm. Birkir Bárðarson.

Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson héldu til loðnumælinga laugardaginn 9. desember.

Mælingar leiðangursins hafa leitt í ljós að áfram verður ráðgjöf um engar veiðar. 

Yfirferð Árna var með landgrunnsbrúninni út af Vestfjörðum og út í Grænlandssund eins og hafís leyfði en Bjarni fór með landgrunnsbrúninni út af Norðurlandi.

Þessar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar voru að frumkvæði og kostaðar af útgerðum uppsjávarveiðiskipa. 

Rannsóknaskipin eru nú á leið til hafnar og verið er að vinna úr gögnum leiðangursins. Það er þó ljóst að það magn sem mældist í þessari yfirferð mun ekki breyta fyrri ráðgjöf um engar veiðar. Aðeins lítill hluti veiðistofnsins var kominn á yfirferðasvæðið miðað við mælingar fyrr í haust.

Framvindan var nokkuð greið enda náðu skipin saman og kláruðu yfirferðina seinni partinn í gær eins og sjá má á kortinu hér (skip.hafro.is). Útbreiðsla hafíss hindraði yfirferðina talsvert til norðurs.

Vestan til á rannsóknasvæðinu var mest af ungloðnu. Hún var þó aðeins blönduð kynþroska loðnu sem myndar veiðistofn á yfirstandandi vertíð.

Kynþroska loðna fannst utan við landgrunnsbrúnina út af Strandagrunni og við Kolbeinseyjarhrygg. Þar var um lítið magn að ræða.

Veiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson hafði, í forkönnun sinni fyrir Norðausturlandi viku fyrr, einnig orðið var við lítilsháttar magn loðnu rétt austan Kolbeinseyjarhryggjar en ekki séð neitt austan við það.

Mynd 1. Bergmálsgildi loðnu í desember 2023 samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar ásamt leiðangurslínum RS Árna Friðrikssonar (rauðar) og RS Bjarna Sæmundssonar (bláar).
DEILA