Ísafjörður: Eyrarkláfur í umhverfismat

Eyrarkláfur ehf hefur hlotið 2 m. kr. styrk úr Uppbyggingasjóði Vestfjarða og segist Gissur Skarphéðinsson forvarsmaður fyrirtækisins vera þakklátur sjóðnum fyrir það. „Ennfremur hefur Vestfjarðastofa hefur sett verkefnið í áfangastaða áætlun sína sem ég er mjög þakklátur fyrir.“

Félagið er búið að setja verkefnið í umhverfismatsvinnu hjá félaginu Rorum ehf sem er öflugt félag í rannsóknum í umhverfis og byggingarmálum ásamt vistfræði og öðrum umhverfis tengdum málum og segir Gissur verkefnið vera í góðum höndum þar.

Mikið hafði verið um það talað og rætt manna á milli á Ísafirði að setja upp kláf sem myndi ferja fólk upp á topp Eyrafjalls sem er fyrir ofan bæinn. Var þessi hugmynd skoðuð árið 2006 en ekkert varð úr henni þá.

Kláfurinn sem núna er verið að skoða er stærri og öflugri en sá sem var skoðaður 2006. Hugmyndin með uppsetningu kláfsins er sú að heimamenn og ferðamenn geti notið þess að fara upp á topp Eyrarfjalls.

„Kláfurinn sem áætlað er að setja upp er af gerðinni 3S Gondola Lift. Kláfurinn verður með tveimur „vögnum“ á tveimur línum. Kláfurinn ferðast um á hjólum sem sitja á tveimur vírum og þriðji vírinn dregur vagninn eftir þeim. Þegar annar er í efstu stöðu þá er hinn í neðstu stöðu. Hvor vagn tekur allt að 45 manns í hverri ferð. Þessi gerð kláfs er hönnuð fyrir aðstæður þar sem meira er um vind og getur hann því tekið á sig meiri hliðarvind en aðrir hans tegundar. Hann notar minni orku og er gerður til að fara hátt upp. Hann getur farið á allt að 8,5 m/s hraða. Gert ert ráð fyrir því að kláfurinn sé um 6–7 mínútur upp á topp Eyrafjalls. Aðalstöðvarhúsið verður niðri en annað stöðvarhús verður á toppi Eyrafjalls. Eitt mastur kemur á milli neðri stöðvar og efri stöðvar til að lyfta kláfnum yfir Gleiðarhjalla. Einn starfsmaður verður ávallt í hvorum kláf og einnig verða starfsmenn staðsettir á báðum endastöðvum. Afkastageta hvors vagns getur verið þrjár til fimm ferðir upp á klst., samtals sex til 10 ferðir á klst. Miðað við 100% nýting á báðum vögnum er afkastageta kláfsins 270 til 450 manneskjur á klst. eða 2.700 til 5400 á dag.

Gissur Skarphéðinsson.

Markmiðið með kláfnum er að veita upplifun sem er ekki algeng á Vestfjörðum: Að einstaklingar fái nýja sýn á þetta svæði með því að eiga kost á því að fara upp á Eyrarfjall á auðveldan hátt. Það verður markmið hjá starfseminni að bjóða viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu með miklu öryggi. Sem dæmi um það fara kláfarnir inn í hús er upp er komið. Mikið öryggi verður í báðum vögnunum og verða sem dæmi fjögur hjartastuðtæki til taks; eitt í hvorum kláf og eitt á hvorri stöð, uppi og niðri. Félagið um kláfinn mun einnig setja sér siðareglur sem eiga að stuðla að heiðarleika og sanngirni, sem talið er að muni hjálpa fyrirtækinu að ná sínum markmiðum. Markaðslegt markmið kláfsins er að vera leiðandi aðili á sínu sviði fyrir viðskiptavini hans. Með því að setja upp þessa starfsemi er verið að auka verðmæti þess að fleiri skip og ferðamenn sækja Ísafjörð heim. Félagið mun sýna samfélagslega ábyrgð sem felst meðal annars í því að bjóða eldri borgurum reglulega fríar ferðir upp. Eins mun starfsemi kláfsins styðja vel við björgunarsveitir á svæðinu og stuðla að því að til verði búnaður í þeirra umsjá sem hægt yrði að grípa til ef til óhapps kæmi. Vonast er til að sá búnaður verði aldrei notaður nema til æfinga. Kláfurinn mun fylgja ströngum umhverfisreglum, því ekki viljum við að rusl dreifist um á toppi fjallsins. Fólk verður hvatt til þess að kaupa ferðir á netinu og með því að gera það sparast pappír, því rafrænir miðar koma í stað pappírsmiða.

Stefnt er að því á vormánuðum að halda íbúafund á Ísafirði með glærukynningu til að halda öllum sem best upplýstum með framvindu verkefnisins, þar sem tekið verður við ábendingum og hvað megi betur fara.“

DEILA