Ísafjarðarbær: bæjarráð vill sameina tvær nefndir

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar vill sameina fræðaslunefnd og íþrótta- og tómstundanefnd  undir heitinu skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd og að nefndin verði skipuð fimm aðalfulltrúum og fimm til vara. Ný nefnd taki til starfa 1. janúar 2024. 

Málið fór til umsagnar í fræðslunefnd sem tók vel í hugmyndina. Íþrótta- og tómstundanefnd setti sig ekki upp á móti tillögunni en bókaði ag hún hefði verulegar áhyggjur af vægi íþrótta- og tómstundamála innan sameinaðar nefndar. Fulltrúar Í-listans í nefndinni lögðu til að nefndarmönnum verði fjölgað í sameinaðri nefnd til að tryggja að málaflokkurinn fái sína fulltrúa.

Það var hins vegar ekki niðurstaða bæjarráðs, sem leggur til að nýja nefndin verði skipuð fimm fulltrúum eins og þær nefndir sem lagðar verða niður. Bæjarráðið leggur þó til við bæjarstjórn að hafa í huga sjónarmið íþrótta- og tómstundanefndar um að málaflokkurinn fái vægi við skipan nýrra nefndarmanna.

Málið fer til bæjarstjórnar sem tekur það fyrir til afgreiðslu.

DEILA