Höfðingleg gjöf til Hrafnseyrar

Síðastliðið sumar tók Ingi Björn Guðnason staðarhaldari á Hrafnseyri við höfðinglegri bókagjöf frá fjölskyldu Hallgríms Sveinssonar og Guðrúnar Steinþórsdóttur, fyrrverandi staðarhöldurum og bændum á Hrafnseyri. Ingi Björn segir að þetta hafi ekki verið nein venjuleg bókagjöf því um var að ræða allt upplag bókarinnar Jón Sigurðsson forseti – ævisaga í hnotskurn sem Hallgrímur tók saman og gaf út undir merkjum Vestfirska forlagsins árið 1994, en bókin markaði jafnframt upphafið að útgáfu forlagsins sem Hallgrímur rak allt til æviloka.

Í bókinni er ævi og störf Jóns Sigurðssonar rakin í hnitmiðuðum og aðgengilegum köflum, auk þess sem ýmsum áhugaverðum aukaupplýsingum er komið fyrir í stuttum spássíutextum. Þá prýða bókina fjöldinn allur af ljósmyndum frá ýmsum tímum. Bókin hentar því ýmsum aldurshópum og verður fyrst um sinn nýtt sem gjöf til skólahópa sem koma á Hrafnseyri til að fræðast um sögu staðarins og Jón Sigurðsson.

Fyrsti skólahópurinn sem þáði bókina af gjöf var hópur nemenda á miðstigi grunnskólanna á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri sem tóku þátt í verkefninu Krakkaveldið á Hrafnseyri en verkefnið var hluti af barnamenningarhátíðinni Púkanum sem fram fór um alla Vestfirði í september síðastliðnum.

Fjölskyldu Hallgríms og Guðrúnar var þakkað kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf og Ingi Björn segist hlakka til að færa hana áfram til ungra gesta staðarins á komandi árum.

DEILA