Hafnir Ísafjarðarbæjar: áhyggjur af litlu samráði við hagsmunaaðila

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri segir að hafnir Ísafjarðar hafi áhyggjur af af litlu samráði við hagsmunaaðila og að auknar álögur hafi áhrif á áframhaldandi skipakomur og áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Er þar vísað til tillagna frá ríkisstjórninni um afnám tollfrelsis minni skemmtiferðaskipa. Er óttast að það leiði til þess að þessi skip stytti hverja ferð til landsins sem muni leiða til þess að einhverjum landshlutum verði sleppt úr hringferð skipsins, helst Vestfjörðum eða Austurlandi.

Hilmar segir í umsögn sinni að hafnir Ísafjarðar sé stærsti aðilinn á Vestfjörðum sem þjónustar skemmtiferðaskip. Tekjurnar af skemmtiferðaskipum séu um það bil 60% af tekjum hafnarinnar og hafi verið 446.303.469 kr. árið 2023. Árið 2020 þegar ekkert skemmtiferðaskip kom til Ísafjarðar var höfnin rekin með um það bil 45.000.000 kr. halla.
Þegar skip eru bókuð núna er reynt að dreifa skipunum á hafnir Ísafjarðarbæjar þannig að minni skipin fari frekar á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri.
„Þannig að það skiptir miklu fyrir höfnina að allt sem gert er í sambandi við skattlagningu á skipin sé skoðað vel frá öllum hliðum og kannað hvaða afleiðingar þær breytingar hafa í för með sér. Afnám tollfrelsis hefur mest áhrif á minni skipin sem fara frekar á minni staðina, t.d. Vigur, Djúpuvík, Reykjafjörð og Patreksfjörð.“

Stöðugildi á ársgrundvelli sem tengjast komum skemmtiferðaskipa eru um 86 í hinum ýmsu fyrirtækjum í Ísafjarðarbæ og nágrenni að sögn Hilmars.
Á fundi sem hann var á með hagaðilum kom fram þeirra álit, að þeir farþegar sem koma til Vestfjarða með skipum kæmu annars ekki hingað.

Margir verslunar og fyrirtækjaeigendur þar á meðal „Dokkan brugghús“ og rútufyrirtæki halda því fram að komur skemmtiferðaskipa farþega sé forsenda þess að þeirra fyrirtæki séu í rekstri allt árið eða stödd þar sem þau eru í dag.

DEILA