Hafbraut tekur til starfa í Menntaskólanum á Ísafirði

Í undirbúningi er stofnun námsbrautar við Menntaskólann á Ísafirði sem hefur hlotið nafnið hafbraut.

Í janúar á þessu ári undirritaði Menntaskólinn á Ísafirði samstarfssamning við fiskeldisfyrirtækin Arctic Fish, Arnarlax og Háafell, auk Vestfjarðastofu, um nám sem kenndi grunnþætti starfa sem tengjast fiskeldi.

Búið er að skoða ýmsar útfærslur sem gætu hentað þessari námsbraut sem vonast er til að geti tekið til starfa næsta haust.

Áætlað er að lögð verði áhersla á að nemendur hljóti undirbúning fyrir sérhæfð störf í fiskeldi og haftengdum greinum, jafnframt því sem þeir fái þjálfun í fjölbreyttum störfum í fiskeldisfyrirtækjum og sjávarútvegi.

Brautinni lýkur með framhaldsskólaprófi á 2. þrepi en er einnig ætlað að verða góður grunnur fyrir áframhaldandi nám á stúdentsbraut og hentar vel fyrir þá sem stefna að starfi eða frekara námi í fiskeldi eða tengdum atvinnugreinum.

DEILA