Gleðilega hátíð

Skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ágúst Atlason.

Fréttavefurinn Bæjarins besta sendir lesendum sínum, auglýsendum og öllum velunnurum besta jóla- og nýárskveðjur með góðum óskum um gott og farsælt komandi ár.

Árið hefur verið Vestfirðingum í meginatriðum farsælt til lands og sjávar rétt eins og árið á undan. Mikilvæg framfaramál hafa mjakast áfram í rétta átt og íbúum fjölgaði, einkum þar sem áhrifa uppbyggingar í atvinnulífinu gætir mest. Nú er lokið vegagerð í Þorskafirði um inn umdeilda Teigskóg, búið að opna brúna yfir Þorskafjörð og sér fyrir endann á vegagerð um Gufudalssveit. Vetrarsamgöngur milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða hafa tekið stakkaskiptum í vetur með þjónustu á Dynjandisheiðinni og nýjum vegarköflum á heiðinni. Innan þriggja ára verður báðum þessum miklu vegaframkvæmdum lokið.

Laxeldi í sjókvíum heldur áfram að eflast í vestfirskum fjörðum og framleiðslan vex hröðum skrefum. Arnarlax og Arctic Fish eru komin í hóp stærstu fyrirtækja landsins og eru metin á hátt á annað hundrað milljarða króna í norsku kauphöllinni. Háafell í Hnífsdal hefur hafið framleiðslu í Ísafjarðardjúpi. Beðið er útgáfu nýrra leyfa í Djúpinu. Nýtt laxasláturhús var opnað í Bolungavík. Fjárfesting í því er um 5 milljarðar króna. Framundan eru frekari fjárfestingar á sunnanverðum Vestfjörðum í nýju sláturhúsi og seiðaeldisstöð, framkvæmdir sem eru um einn tugur milljarða króna. Áform stjórnvalda um nýja löggjöf um fiskeldi þurfa að styðja við uppbygginguna en varast ber að láta undan þrýstingi andstæðinga atvinnugreinarinnar sem vilja stöðva starfsemina.
Enn er lítil hreyfing á virkjunaráformum á Vestfjörðum og orkuskortur hamlar atvinnuuppbyggingu og orkuöryggi í fjórðungnum. Bundnar eru vonir við að árið skili okkur fram á við. Hafinn er undirbúningur að nýrri kalkþörungaverksmiðju í Súðavík með landfyllingu á Langeyri og útsýnispallur á Bolafjall ásamt stórhuga uppbyggingu Sundahafnar á Ísafirði hefur styrkt ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Erlendu skemmtiferðaskipin hafa skilað miklu til samfélagsins og Vestfirðingar munu nýta þau til þess að halda áfram að byggja upp sína ferðaþjónustu.

DEILA