Frumvarp til laga um sjávarútveg – umsagnafrestur framlengdur – Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda mótmæla

Brákarey MB 4 í höfn á Drangsnesi. Mynd: Guðmundur Magnússon.

Frestur til að senda inn umsagnir eða ábendingar um viðkomandi drög að sjávarútvegsstefnu ásamt drögum að frumvarpi til laga um sjávarútveg hefur verið framlengdur til og með 10. janúar 2024.

Drög að sjávarútvegsstefnu innihalda framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs til 2040. Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku um sjávarútveg til að stuðla að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag.

Með frumvarpi til laga um sjávarútveg er lagt til að sett verði ný heildarlög þar sem sameinaðir eru núgildandi lagabálkar á sviði fiskveiðistjórnunar, til að tryggja betri yfirsýn um þær reglur sem gilda um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar. Frumvarpið byggir að miklu leyti á núgildandi lögum en þó er í frumvarpinu að finna nýmæli úr tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar í skýrslunni Sjálfbær sjávarútvegur.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda hafa mótmælt frumvarpinu, þá sérstaklega hugmyndum um rýmkun hámarksaflahlutdeildar félaga á markaði í 15%.  „Þá er staðreyndin áfram sú, nái frumvarpið fram að ganga, að 6-10 fyrirtækjasamstæður geti haldið á öllum veiðiheimildum þjóðarinnar og jafnvel haft óljós eignatengsl sín á milli“, eins og segir í ályktun stjórnarinnar.

Þá segja samtökin einnig að eðlilegt sé að strandveiðar hefjist að loknu hrygningarstoppi um miðjan apríl og standi til loka september. Jafnframt ber að tryggja öllum strandveiðisjómönnum jafnt aðgengi, með fyrirfram ákveðnum dagafjölda í stað heildar úthlutunar á strandveiðiflotann. Auk þess verði skylt að landa strandveiðiafla á markaði til að tryggja sjálfstæði strandveiðisjómanna sem best.

DEILA