Framsókn Ísafjarðarbæ: tækifæri til að lækka fasteignaskatt enn frekar

Kristján Þór Kristjánsson, er oddviti B lista.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir næsta ár var afgreidd á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi. Í bókun fulltrúa Framsóknarflokksins segir að tekjur sveitarfélagsins hafi aukist verulega undanfarin tvö ár og að mögulegt væri að lækka fasteignaskatt enn frekar en ákveðið var eða í 0,52%.

Bókun Framsóknarflokksins:

„Undanfarin tvö ár hafa tekjur Ísafjarðbæjar verið að aukast verulega.  Hefur það ásamt aðhaldi í rekstri skilað því að fjárhagsáætlun 2023 virðist ætla að standa með hagnaði bæði af A-hluta og samtæðu A og B-hluta.  Fjárhagsleg markmið sem bæjarstjórn setti sér á kjörtímabilinu hafa átt stóran þátt í því að rekstur horfir nú til hins betra eftir erfið ár vegna heimsfaraldurs.  

Við fyrstu umræðu fjárhagsáætlunar 2024 gerðu bæjarfulltrúar Framsóknar athugasemdir við hækkun rekstrarkostnaðar þá sérstaklega launakostnaðar og aukningu í stöðugildum.  Fannst okkur að það aðhald sem verið hefur væri á undanhaldi í ráðningum og launakostnaði.   Hækkun tekna hefur lítið að segja ef útgjöldin aukast úr hófi fram.  Við fyrstu umræðu var gert ráð fyrir 105 milljóna króna hagnaði af A-hluta.  Töldum við að hægt væri að gera betur í rekstri og bókuðum því að með meira aðhaldi í útgjöldum væri hægt að lækka fasteignaskatt til íbúa. 

Núna liggja fyrir lokadrög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og hefur greinilega farið fram góð vinna milli umræðna.  Tekjur hafa hækkað og kostnaður einnig en ekki í sama hlutfalli.  Fjárhagsáætlunin gerir nú ráð fyrir 186 milljóna króna afgangi af A-hluta.  Við þessar forsendur teljum við möguleika á lækkun fasteignaskatts niður í 0.52% og eru það vonbrigði að ekkert af auknum afgangi milli umræðna fari í að lækka álögur á íbúa.  Með lækkun fasteignaskatts niður í 0,52% hefði hagnaður af A-hluta verið um 167 milljónir og reksturinn því enn innan fjárhagslegra markmiða bæjarstjórnar næstu þrjú ár, en að sama skapi koma til móts við vaxandi álögur á bæjarbúa. 

Kjarasamningar eru lausir á árinu 2024 og er óljóst hvernig samningaviðræður munu ganga.  Framsókn leggur til við meirihluta Í-lista og bæjarstjóra að ganga fram með góðu fordæmi og leggja til að samningur bæjarstjóra verði ekki tengdur launavísitölu heldur fylgi samskonar hækkununum og starfsmenn sveitarfélaga fá skv kjarasamningum.   Væri það gott fyrsta innlegg Ísafjarðarbæjar inn í vinnu við kjarasamninga og myndi senda jákvæða strauma inn í kjarasamningaviðræður.  

Bæjarfulltrúar Framsóknar vilja þakka fyrir góða samvinnu og gott upplýsingaflæði við vinnu fjárhasáætlunar.  Athugasemdir frá Framsókn hafa verið teknar gildar sem hefur leitt til betri afkomu sveitarsjóðs.  Vinnan hefur verið gegnsæ og er vert að þakka fyrir það.  Framsókn telur margt jákvætt við áætlunina og telur bæjarstjórn á réttri leið með að ná markmiðum sínum í rekstri.  Framsókn stendur fyrir samvinnu, hófsemi og heiðarleika. Framsókn telur samvinnu bestu leiðina til að ná fram góðum árangri sveitarfélaginu og íbúum til heilla.  Það er ekki síst vegna góðs samstarf innan bæjarstjórnarinnar sem þessi árangur hafi náðst.  Bæjarfulltrúar Framsóknar sem sitja í minnihluta hafa viljað vera leiðandi í samvinnu og viljað skapa vinnufrið sveitarfélaginu og samfélaginu til heilla.  Má álykta að það séu að breytt pólitík minni og meirihluta í Ísafjarðarbæ.   Það eru vissulega vonbrigði að ekki sé vilji meirihluta að lækka fasteignaskatt frekar. Þrátt fyrir þá niðurstöðu telja bæjarfulltrúar Framsóknar nauðsynlegt að halda áfram þeirri vegferð sem við erum á og munum því vera samþykk þessari fjárhagsáætlun að öðru leyti.“ 

DEILA