Fasteignir Ísafjarðar: selja sex íbúðir

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Á árinu 2024 er ráðgert að selja sex íbúðir, við Stórholt og Fjarðarstræti á Ísafirði og Dalbraut í Hnífsdal. Söluverð er áætla 124.430.000 kr. Bókfært verð íbúðanna er 22.671.000 kr. og söluhagnaður því 101.759.000 kr. Lán sem hvíla á íbúðunum eru að fjárhæð tæpar 53 m.kr.

Jafnframt á sér stað samtal við óhagnaðardrifin leigufélög um mögulega yfirtöku á hluta eignasafnsins.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir að sveitarfélagið hafi átt í samtali við Bríeti sem er óhagnaðardrifið leigufélag í eigu HMS, og Brák íbúðafélag sem eru í eigu 31 sveitarfélags á landsbyggðinni, en það er einnig rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja.

„Við vonumst til að fá niðurstöður í þessar viðræður í upphafi næsta árs, og þá kemur í ljós hversu margar íbúðir þetta verða. Markmið okkar með sölu íbúða er að létta á rekstri Fastís og geta þar með tekið þátt í fleiri húsnæðisverkefnum.“

DEILA