Fasteignafélagið 101 Tálknafjörður

Undirritaður er stjórnarformaður í Fasteignafélaginu 101 Tálknafjörður sem er að fullu í eigu Tálknafjarðarhrepps. Vaninn hefur sá að kjörnir fulltrúar sitji í fimm manna stjórn félagsins og sveitarstjóri hefur verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Einungis fjórir gáfu kost á sér eftir síðustu kostningar og voru þeir skipaðir í stjórn og ég þar á meðal.  Aðalfundur félagsins var haldinn þann 27. júní síðastliðinn.  Ársreikningur ársins 2022 var lagður fram til samþykktar. Ég rak augun í það að á tveimur eignum félagsins sem voru seldar, önnur árið 2021 og hin snemma árs 2022, var fært viðhald samtals tæpar 2,8 milljónir króna, Þetta kom fram í rekstraryfirliti sem ég bað um sérstaklega fyrir fundinn. Mér fannst þetta undarlegt og spurði framkvæmdastjóra um þetta og svarið var á þá leið að komið hefðu upp gallar í báðum íbúðum og því hefði söluverðið verið lækkað. Mér fannst þetta skrítin færsla í bókhaldi því auðvitað hefði átt að færa þetta á lækkun söluverðs en mér datt ekki annað í hug en fyrri stjórn hefði tekið þetta mál fyrir og samþykkt þessa lækkun söluverðs og samþykkti ég því ársreikninginn. Þessar sölur voru báðar samþykktar af fyrri stjórn og var söluverð hvorrar íbúðar 40 milljónir króna.

Í haust kemst ég svo að því fyrir tilviljun að fyrrverandi stjórnarformaður félagsins kannaðist hvorki við lækkun söluverðs þessara íbúða né hafði heyrt um neina galla á íbúðunum. Sömu sögu sögðu þeir stjórnarmenn sem ég ræddi við. 

Ég óskaði eftir skýringum framkvæmdastjóra og þegar þau loks bárust, kom það í ljós að hann hafði upp á sitt einsdæmi lækkað söluverð beggja íbúða um þessar tæplega 2,8 milljónir sem síðan var fært sem viðhald í bókhaldi félagsins og menn geta spurt sig hvers vegna þetta hafi verið fært á þennan hátt því að ekkert viðhald átti sér stað.

Ég tel augljóst að með þessum gjörningi hafi Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri brotið samþykktir félagsins enda hafði hann einungis heimild stjórnar til að ganga frá sölu þessara eigna á umsömdu verði.  Stjórn félagsins átti auðvitað að samþykkja þessa lækkun ef hún teldi það rétt. En það má benda á að meintir gallar voru metnir á u.þ.b 3,5% af söluverði eignanna sem er í raun allt of lágt hlutfall til þess að geta talist galli að því að ég best veit. Ég tel að Ólafur framkvæmdastjóri hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart félaginu með þessu og ég stefndi að því að taka það mál fyrir á aukafundi og bera fram tillögu um að Ólafur verði krafinn um að bæta það tjón sem hann olli félaginu og þar með öllum íbúum sveitarfélagsins með þessum gjörningi sínum.

Nú ber svo við að Lilja Magnúsdóttir oddviti flytur tillögu á síðasta fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps þann 12. desember, sem er á þá leið að tilnefna nýja stjórn fyrir félagið þar sem að mér er bolað út. Þessi tillaga var samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu og einn fulltrúi sat hjá. Virðist tilgangur hennar vera að þagga niður þetta mál og gera Ólaf ekki ábyrgan gjörða sinna. Þessir þrír fulltrúar virðast því verja þessa ótrúlegu stjórnsýslu Ólafs en ekki hagsmuni íbúa sem þeir eru þó kjörnir til þess að gera.

Auk þess má benda á misræmi sem er í bókhaldi félagsins en færðar leigutekjur á húsnæði það sem sveitarstjóri leigir af félaginu eru mun hærri en leigusamningur hans segir til um sem að kom í ljós nýlega.

Á þessum sama fundi sveitastjórnar voru samþykktar miklar hækkanir á nánast öllum gjaldskrám sem íbúar þurfa að greiða enda stendur sveitarfélagið afar illa sem er kannski ekki að furða á meðan svona vinnubrögð eru viðhöfð.

Jón Ingi Jónsson

DEILA