Bolungavíkurhöfn: 2.685 tonn af bolfiski í nóvember

Jóhanna Gísla GK í Bolungavíkurhöfn í október 2023. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 2.685 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn í nóvembermánuði. Þar af voru 1.210 tonn af eldisfiski og annar bolfiskur var 1.475 tonn.

Aflahæstur var togarinn Sirrý ÍS sem kom með 529 tonn eftir 6 veiðiferðir. Dragnótabátar öfluðu ágætlega í mánuðinum. Ásdís ÍS var með 160 tonn og Þorlákur 80 tonn. Þrír dragnótabátar frá Snæfellsnesi lönduðu í Bolungavík. Saxhamar SH var með 58 tonn, Bárður SH með 100 tonn og Steinunn SH landaði 55 tonnum.

Þrír línubátar reru í mánuðinum. Fríða Dagmar ÍS landaði 239 tonnum eftir 23 róðra , Jónína Brynja ÍS var með 217 tonn í 22 róðrum og Indriði Kristins BA kom með 13 tonn eftir 8 róðra.

Þá var Sjöfn SH frá Stykkishólmi á ígulkerjaveiðum og landaði 26 tonnum.

DEILA