Bolungavík: tekjur næsta árs losa 2 milljarða króna

Lundahverfið nýja í Bolungavík.

Það sem einkennir fjárhagsáætlun næsta árs fyrir Bolungavíkurkaupstað að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra er að tekjur eru að aukast þrátt fyrir lækkun fasteignaskatts og hóflegrar hækkunar á gjaldskrám fyrir þjónustu. Almennt hækkuðu gjaldskrár um 5%. Tekjur aukast um 290 m.kr á milli áætlana, þar af aukast útsvarstekjur um rúmlega 100m.kr. Annað árið í röð eru miklar framkvæmdir á áætlun. Verða þær nærri 400 milljónir króna og þar af fjármagnaðar 300 m.kr. úr bæjarsjóði.

Áætlunin gerir ráð fyrir 13 m.kr. afgangi af A og B hluta rekstrar, en 16 m.kr. afgangi af A hluta. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 240 m.kr. á árinu, eða 11,9% af heildartekjum.

Útgjaldamegin þá hækka laun og launatengd gjöld um 157m.kr. á milli áætlana 2023 og 2024. Hefur launakostnaður sveitarfélagsins aukist um 20% frá árinu 2022, en á sama tíma er áætlað að launavísitala hækki um 18% á sama tímabili. Gert er ráð fyrir að stöðugildum fjölgi á árinu úr 82 í 85.

Bæjarstjórn Bolungavíkur samþykkti fjárhagsáætlunina á fundi sínum á þriðjudaginn.

skuldir lækka í 86%

Jón Páll segir að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins sé sterk. Sveitarfélagið standi vel gagnvert þeim kennitölum sem sveitarfélög og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga miða alla jafna við.
Skuldahlutfall sveitarfélagsins lækkar verulega á milli ára samkvæmt áætluninni og er áætlað að verði um 86% af ráðstöfunartekjum í lok árs 2024.

Stærsti tekjuliðurinn er útsvar og fasteignaskattur sem er áætlaður 982 m.kr. á næsta ári. Framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er áætlað verða 406 m.kr. heildartekjur verða 2.025 m.kr.

Hafnarsjóður verður rekinn með verulegum afgangi samkvæmt áætluninni. Tekjur verða 149 m.kr. og afgangur eftir rekstur og fjármagnskostnað eru áætlaðar 41 m.kr. eða 28% af tekjum. Sömuleiðis er vatnsveitan rekin með afgangi. Tekjur eru áætlaðar 63 m.kr. og gert er ráð fyrir að 20 m.kr. standi eftir eftir rekstur og fjármagnskostnað. Sömu sögu er að segja af rekstri fráveitu. Tekjur eru áætlaðar 28m.kr. og eftirstöðvar 15 m.kr.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri

Litlr framkvæmdir verða við höfnina á næsta ári eða aðeins 7 m.kr. í viðhaldsverkefni en hins vegar eru stór verkefni í gangi við nýja vatnsveitu og eru settar 146 m.kr. í það verkefni á næsta ári. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum og taka nýja vatnsveitu í notkun á árinu. Frá Fiskeldissjóði hafa fengist styrkir að fjárhæð 45 m.kr. til þeirra framkvæmda. Sótt verður um frekari styrk úr sjóðnum en vegna óvissu um Fiskeldissjóð er ekki gert ráð fyrir því í fjárhagsáætluninni. Jón Páll segir að óvissan um Fiskeldissjóð sé óþægileg og geti leitt til ómarkvissari og óhagkvæmari framkvæmda.

Miklar framkvæmdir verða við götur og gangstéttir á næsta ári. Í Lundahverfi verður framkvæmt við götur og lagnir fyrir 100 m.kr., byrjað verður á miklu viðhaldi á Völusteinsstræti og settr eru 40 m.kr. í það , 50 m.kr. eru áætlaðar í annað malbik og 9 m.kr. í gangstéttir.

DEILA