23% byggðakvótans í Ísafjarðarbæ

Mynd: Fengin af facebooksíðu Flateyrarhafnar.

Alls hefur matvælaráðherra 4.829 þorskígildistonn til ráðstöfunar í byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Hefur þeim verið skipt milli byggðarlaga og koma 1.110 tonn í hlut byggðarlaga innan Ísafjarðarbæjar. Er hlutur sveitarfélagsins því 23% af byggðakvótanum.

Mest fellur í hlut Flateyrar en þangað fara 285 þorskígildistonn. Til Þingeyrar fara 275 tonn. Ísafjörður er í þriðja sæti með 195 tonn, þá Suðureyri með 192 tonn og Hnífsdalur 163 tonn. Samtals gera þetta 1.110 tonn.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að gera tillögur að sérreglum um úthlutun kvótans á báta og skip og leggja fyrir bæjarráðið. Á síðasta fiskveiðiári giltu þær sérreglur að úthlutun byggðakvóta hvers byggðarlags á báta var þannig að fyrst fengu frístundabátar 1 tonn, síðan var 40% byggðakvótans skipt jafnt milli annarra báta og afganginum skipt hlutfallslega milli bátanna miðað við allan landaðan afla. þá var skylt að landa aflanum innan sveitarfélagsins en ekki endilega skilyrt því að landa í viðkomandi byggðarlagi.

Bolungavík : 65 tonn

Úthlutaður byggðakvóti til Bolungavíkurkaupstaðar nemur 65 tonnum. Bæjarráð Bolungavíkur hefur ákveðið að setja ekki neinar sérreglur og gilda því almennar reglur ráðuneytisins um úthlutun kvótans á báta og skip í byggðarlaginu. Samkvæmt þeim er kvótanum skipt hlutfallslega milli skipa í byggðarlaginu miðað við landaðan botnfiskafla.

DEILA