Súðavík: framleiða heitt vatn

Blámi er að vinna að tilraunaverkefni í Súðavík þar sem ætlunin er að nota gamla vatnsveitu til þess að hita vatn. Vatnsveitan er í um 100 metra hæð yfir sjávarmáli og ætlunin er að láta kalt vatn renna um pípuna og snúa túrbínu sem aftur snýr segluhitara og hann hitar vatnið.

Þorsteinn Másson, forsvarsmaður Bláma segir að þetta hafi verið prófað um helgina og lofi góðu. Hann segir að ljóst sé að kenningin gangi upp. Í fyrstu verður unnið að því að geta hitað vatn í einn heitan pott og síðan eru áform um að útvíkka tilraunina og ef allt gengur að óskum væri hægt að hita húsnæði í Súðavíkurhreppi, t.d. íþróttahúsið með heita vatninu.

Orkustofnun hefur styrkt verkefnið um 1 milljón króna og Lofstlagsjóður veitti Bláma 7,8 m.kr. styrk og þarf af er 1,5 m.kr. ætluð í Súðavíkurverkefnið.

Þorsteinn Másson sagðist vera mjög bjartsýnn eftir helgina á að þessi tilraun muni takast.

DEILA